151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

jafnréttismál.

[14:20]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þarf að árétta það hér sem áður kom fram að þetta mál er á forræði hæstv. mennta og menningarmála. Það er ekki ríkisstjórn sem samþykkir eitt né neitt frá ráðherrum í svona málum. Þannig er stjórnskipanin ekki. Málið er á forræði hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra og persónulega tel ég það ekki við hæfi að ráðherrar, sérstaklega ekki þegar málin heyra ekki undir þá, beiti sér við dómstóla, eins og hv. þingmaður orðaði það í fyrirspurn sinni sem ég hef aðeins melt. Ég myndi ekki telja það við hæfi að forsætisráðherra færi að beita sér í því hvernig dómstólar haga málum sínum, að óska eftir flýtingu einstakra mála sem varða ráðherra í ríkisstjórn forsætisráðherra.

Hv. þingmaður spyr: Var þetta mál borið undir ríkisstjórn? Það var ekki borið undir ríkisstjórn enda á forræði hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra. Ráðherra gerði ríkisstjórn munnlega grein fyrir þessu máli eftir að (Forseti hringir.) úrskurður kærunefndar féll í maí sl. Þá gerði hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra ríkisstjórn (Forseti hringir.) munnlega grein fyrir þessu máli en það er ekki ríkisstjórnar að samþykkja það.