151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

fsp. 5.

[14:23]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég verð bara að segja alveg eins og er að ég fæ á tilfinninguna að hv. þingmaður sé að þvæla saman algerlega óskyldum málum. Málið sem hv. þingmaður kemur hér upp með og vill rifja upp, í framhaldi af því að hann talar um mikla pólitíska spillingu og frændhygli og ég veit ekki hvað var ekki sagt hér, er málið þegar Jóhanna Sigurðardóttir höfðaði ekki mál til þess að fá ógiltan úrskurð úrskurðarnefndar um jafnréttismál, þrátt fyrir að hafa verið sem félagsmálaráðherra hér í þinginu með frumvarp sem gerði þá grundvallarbreytingu að úrskurðir nefndarinnar yrðu bindandi. Hún var ráðherrann sem lagði þetta til við þingið og fékk það samþykkt. Þegar síðan úrskurðarnefndin komst að niðurstöðu í máli hennar þá vildi hún ekki höfða mál til þess að ógilda úrskurðinn og gat ekki samið við þann sem í hlut átti. Þetta taldi ég vera hneyksli. Ráðherrann átti annaðhvort að fara í dómsmál til að fá niðurstöðunni hnekkt eða semja strax við þann sem í hlut átti, sem tók allt of langan tíma. Í mínu máli, sem hv. þingmaður telur til vitnis um einhvers konar spillingu eða eitthvert rugl, þá sömdum við einfaldlega um bætur og við fórum ekki í málið. Þannig að það mál var upp gert. Ég skil ekkert hvað hv. þingmaður er að fara.