151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

um fundarstjórn.

[14:36]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Í fundarstjórninni áðan kom formaður þingflokks Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs hingað upp og sagði m.a. að það væru næg tilefni til að spyrja ráðherra og fá svör, fá upplýsingar. Það er nefnilega þannig. Hér voru lagðar fram spurningar til hæstv. forsætisráðherra, m.a. af hálfu hv. þm. Hönnu Katrínar Friðriksson, sem snerta jafnréttismál, málaferli hæstv. menntamálaráðherra gagnvart einstaklingi sem vann mál gegn henni í héraðsdómi. Við fengum engin svör. Spurningarnar voru mjög einfaldar, ég held að það hafi verið fjögur orð í spurningu hv. þm. Hönnu Katrínar Friðriksson. En við fengum engin svör, enga afstöðu ráðherra. Það er náttúrlega umhugsunarefni að við fengum enga afstöðu hæstv. ráðherra jafnréttismála til þessa máls heldur var farið undan í flæmingi. Ég vil bara benda á að við erum að sinna aðhaldshlutverki þingsins, reyna að fá svör, reyna að fá skýringar í mikilvægum málum sem snerta jafnréttismál, í máli sem við ætlumst til að ráðherra jafnréttismála hafi skoðun á, í þágu jafnréttis, en það eru engin svör. (Forseti hringir.) Það er bara farið með himinskautum og með einhverja þvælu, (Forseti hringir.) m.a. um stefnu stjórnarinnar, sem stenst ekki skoðun þegar verið er að spyrja (Forseti hringir.) um tiltekin mál.