151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

svör ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[14:37]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég hlýt að taka undir þetta. Það er eiginlega orðin regla frekar en undantekning að við í stjórnarandstöðunni undirbúum mjög skýrar og afmarkaðar spurningar til ráðherra sem koma hingað upp og segja áhugaverða hluti — ekki vantar það og fara gjarnan í að telja upp fyrri afrek sín — en svara ekki spurningum sem að þeim er beint. Oftar en ekki byrjar seinni ræða okkar á því að biðja nú ráðherra að svara spurningunni en allt kemur fyrir ekki. Ég hlýt þess vegna að hvetja hæstv. forseta og aðra að setjast niður og ræða þetta, stöðva ráðherrana þegar þeir eru komnir langt út fyrir efnið og biðja þá að halda sig við spurningarnar. (Forseti hringir.) Það er hlutverk hæstv. forseta að standa vörð um rétt okkar þingmanna gagnvart framkvæmdarvaldinu. Það finnst mér þeir ekki gera með því að (Forseti hringir.) leyfa ráðherrunum að malbika út og suður án þess að nálgast einu sinni viðfangsefnin.