151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

svör ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[14:44]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég vil undirstrika að þeim einföldu spurningum sem var beint til hæstv. forsætisráðherra og jafnréttisráðherra var ekki svarað í dag. Og hvernig er þá með aðhaldshlutverk þingsins þegar settar eru fram mjög skýrar spurningar en þeim er síðan ekki svarað af því að þær eru pólitískt óþægilegar?

Ég tek undir það sem hér var sagt rétt áðan að í því felst auðvitað ákveðin yfirlýsing af hálfu jafnréttisráðherra, sem er forsætisráðherra, að vilja ekki taka afstöðu til máls, vilja ekki hafa skoðun á málinu þar sem öllum málsástæðum menntamálaráðherra hefur, bæði af kærunefnd jafnréttismála en ekki síður af héraðsdómi, í raun verið hafnað, algjörlega. En jafnréttisráðherra vill ekki tjá sig um málið og mér finnst það miður. Ég lít ekki öðruvísi á það en þannig að forsætisráðherra sé einfaldlega að blessa þessa málafylgju alla hjá menntamálaráðherra. Hitt er síðan umhugsunarefni hvernig ráðherrar í ríkisstjórn beita sér bæði hér innan þings sem utan. (Forseti hringir.) Ef aðhaldið er of mikið héðan er okkur ekki svarað og þegar þeir fulltrúar sem við erum m.a. að skipa í stjórnir spyrja óþægilegra spurninga, hvað gera ráðherrar í ríkisstjórn þá? Þeir losa sig við óþægilega fulltrúa minni hlutans.