151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

vera Íslands í Atlantshafsbandalaginu.

[15:00]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Það er hárrétt hjá hv. málshefjanda að að okkur steðja mjög margar og víðtækar ógnir, bæði í daglegu lífi og auðvitað á stærri skala. Hamfarahlýnun er sannarlega meðal þeirra, netógnin og hefðbundnar varnarógnir líka. Þessar áskoranir eiga það allar sameiginlegt að við munum ekki finna nein svör við þeim nema í mikilli alþjóðasamvinnu. Nýjar ógnir, tæknibyltingin og loftslagsbreytingarnar, brýna okkur enn frekar til dáða en áður í því. Lítil og fámenn ríki eins og Ísland þurfa alls ekki síður á fjölþjóðlegu samstarfi og traustum bandamönnum að halda en hin.

Samfylkingin hefur þess vegna lengi talað fyrir því að hagsmunir Íslands séu best tryggðir með samvinnu innan fjölþjóðlegra stofnana, bæði á efnahagssviðinu, þegar kemur að varnarmálum og ekki síst þegar kemur að því að ráðast gegn loftslagsvandanum. Ísland er eitt af stofnríkjum Atlantshafsbandalagsins, en við erum með þá sérstöðu að við höfum ekki her. Við teljum að þátttaka í þessu samstarfi sé ein af lykilstöðum í vörnum Íslands, eins og fram kemur í þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland, sem við í Samfylkingunni styðjum. Það er hins vegar áhugavert að þingflokkur Vinstri grænna gerði það ekki í atkvæðagreiðslu en samþykkir það nú samt sem áður í stjórnarsáttmálanum. Þannig að það má spyrja sig hvort hér sé um að ræða orðin tóm.