151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

vera Íslands í Atlantshafsbandalaginu.

[15:07]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar var samþykktur í flokksráði VG með tveimur þriðju hluta atkvæða. Í stjórnarsáttmálanum er lögð áhersla á öryggismál þjóðarinnar, að þau séu í föstum skorðum og að þjóðaröryggisstefnan sem Alþingi samþykkti verði höfð að leiðarljósi. Í henni segir skýrt að fullveldi Íslands sé tryggt með aðildinni að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningnum við Bandaríkin. Þetta þýðir að Vinstri græn hafa formlega samþykkt að það skuli vera stefna flokksins að Ísland eigi aðild að bandalaginu og hafa varnarsamning við Bandaríkin í þeim tilgangi að varðveita fullveldi landsins. Þegar ríkisstjórnin var mynduð virtist enginn vafi hafa leikið á því í flokksráði VG að helsta gildi aðildarinnar væri að verja sjálft fullveldið. Það voru í raun og veru mestu pólitísku tíðindin við myndun núverandi stjórnar og um leið, að mínu mati, þau ánægjulegustu.

Þjóðaröryggisstefnan er eina lýðræðislega samþykkt Alþingis sem kveður á um ástæðuna fyrir aðild landsins að NATO og varnarsamningnum við Bandaríkin. Þjóðaröryggisstefnan og lögin sem hún byggir á heyra undir forsætisráðherra. Forsætisráðherra hefur talað fyrir þjóðaröryggisstefnunni, bæði hér heima og á erlendum vettvangi, af mikilli einurð, af fullri einurð. Ef VG hefur hins vegar skipt um skoðun á þjóðaröryggisstefnunni frá því að ríkisstjórnin var mynduð ætti forsætisráðherra að taka það álitaefni upp í ríkisstjórn eða eftir atvikum á Alþingi.

Í því ljósi tel ég rétt að málshefjandi hefði átt að hugsa um að beina spurningu sinni til forsætisráðherra. En málshefjandi þarf að skýra tilgang umræðunnar betur, ég tel að hann þurfi að gera það. Eina gilda ástæðan fyrir hv. þingmann, sem samþykkti stjórnarsáttmálann fyrir rúmum þremur árum, til að taka þessa spurningu til umræðu nú þegar dregur að kosningum er sú að hann sé byrjaður að efast um að hafa gert rétt og efast um að stjórnarsáttmálinn sé byggður á réttum forsendum. Málshefjandi þarf því líka að skýra út hvenær hann fór að efast um það sem hann samþykkti sjálfur í byrjun stjórnarsamstarfsins. (Forseti hringir.) Hann þarf ekki síður að gera grein fyrir því hvort Vinstri græn muni óska eftir breytingum á stjórnarsáttmálanum komi til þess að stjórnarsamstarfið verði endurnýjað að loknum kosningum.