151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

vera Íslands í Atlantshafsbandalaginu.

[15:12]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Hæstv. forseti. Það er gæfa þjóðarinnar að hafa verið eitt af 12 stofnríkjum Atlantshafsbandalagsins eða NATO þegar Atlantshafssáttmálinn var undirritaður í Washington vorið 1949. Fámennri þjóð eins og okkar er með öllu ómögulegt að tryggja varnir landsins nema með samstarfi við aðrar stærri þjóðir. Aðild Íslands að NATO, auk varnarsamningsins við Bandaríkin frá 1951, er til þessa dags okkar helsta stoð í öryggis- og varnarmálum þjóðarinnar. NATO er í dag bandalag 30 ríkja í Evrópu og Norður-Ameríku. Þetta eru þær þjóðir sem standa okkur næst í sögulegu samhengi, þær þjóðir sem við deilum með hugsjónum og gildum. Atlantshafsbandalagið er vettvangur vestrænna lýðræðisríkja sem vilja standa vörð um frelsi borgaranna, lýðræði, mannréttindi og sjálft réttarríkið. Kjarninn í starfi NATO er sá að þetta er í eðli sínu varnarbandalag þar sem ákvarðanir eru teknar sameiginlega um sameiginlega öryggishagsmuni. Þannig getur Ísland haft mikil áhrif og sterkari rödd en ef landið stæði hlutlaust utan varnarbandalagsins. Það er orðið fámennt í þeim hópi sem gerir lítið úr aðsteðjandi hernaðarógn. Flestir eru meðvitaðir um mjög svo breytta heimsmynd. Helstu nágranna- og vinaþjóðir okkar hafa gripið til aukinna varna og viðbúnaðar af þeim sökum. Við megum heldur aldrei gleyma því að fyrir aðeins átta áratugum, á fyrstu árum seinni heimsstyrjaldarinnar, hefðu mál hæglega getað þróast Íslandi í óhag. Þjóðverjar réðust inn í Danmörku og Noreg á sama tíma og Bretar tóku land hér. Hernám Þjóðverja var niðurlægingarskeið í sögu beggja landa sem skildi eftir sig opin sár.

Hæstv. forseti. Aðildin að Atlantshafsbandalaginu hefur verið Íslandi til farsældar. Við eigum því áfram að vera virkur þátttakandi þar og stuðla með því að friði og stöðugleika í okkar heimshluta.