151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

vera Íslands í Atlantshafsbandalaginu.

[15:26]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Hún kom mér örlítið á óvart. Hún var málefnalegri en ég átti von á. Það var farið efnislegar í ýmis ákvæði en ég átti von á. Vissulega hefðbundinn pólitískur útúrsnúningur og slagur en ekki í því magni sem ég átti von á. Ég er ekki endilega viss um að undrun þingmanna yfir því að hægt sé að starfa eftir þjóðaröryggisstefnu, sem við höfum verið á móti, af því að meiri hlutinn samþykkti hana, sé raunveruleg. Þetta heitir lýðræði.

Mér fannst pínulítið skrýtið að heyra að ég hljóti að styðja NATO og þjóðaröryggisstefnu vegna stuðnings míns við ríkisstjórn frá hv. þingmanni sem gekk í flokk sem styður NATO. Það sama hlýtur þá að eiga við um hv. þm. Rósu Björk Brynjólfsdóttur ef þetta gengur upp fyrir mig. Ég deili ekki hennar skoðun á því. Ég held að hennar andstaða sé raunveruleg og ég bið hana að virða það að mín andstaða er það líka.

Hér hefur verið fjallað um ýmislegt um NATO. Já, NATO gerir ýmislegt. NATO er bandalag mestu vopnaframleiðslulanda heims sem dæla vopnum inn á stríðshrjáð svæði. NATO er bandalag sem skikkar aðildarríki sín til að verja sívaxandi fjárhæðum í vopn. NATO er kjarnorkuvopnabandalag sem sveigir og brýtur gildandi afvopnunarsamninga, eða eigum við að rifja upp gagneldflaugakerfið sem leiddi af sér nýtt vopnaþróunarkapphlaup? NATO er bandalag sem starfar með herjum landa á borð við Ísrael og Sádi-Arabíu. NATO er bandalag sem kennir sig við lýðræði en hefur í sínum röðum land eins og Tyrkland og þorir ekki að anda á ráðamenn þar. NATO er bandalag sem stuðlar að flóttamannastraumi með hernaðarárásum. NATO er bandalag sem Ísland á ekki að taka þátt í því að Ísland á að vera leiðandi í málefnum friðar og baráttu gegn hamfarahlýnun.