151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

mótun klasastefnu.

522. mál
[15:49]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Nú er liðið rétt ár síðan Alþingi samþykkti þingsályktun um mótun klasastefnu. Að baki þingsályktuninni stóðu þingmenn úr öllum flokkum en ég held að það sé á engan hallað þegar ég nafngreini sérstaklega hv. þm. Willum Þór Þórsson sem helsta hvatamann ályktunarinnar. Ég vil því í upphafi hrósa og þakka flutningsmönnum þeirrar tillögu fyrir að beina kastljósinu að hugmyndafræði klasa og hvernig klasar geti eflt og styrkt umhverfi nýsköpunar og framfara. Í greinargerð með þingsályktuninni segir að klasastefnu sé ætlað að móta farveg vinnu við eflingu nýsköpunar og atvinnulífsins vítt og breitt um Ísland. Með opinberri klasastefnu sé hægt að efla samvinnu vísinda og atvinnulífs í þágu verðmætasköpunar sem leiðir af sér aukna framleiðni og hagsæld.

Ég segi oft að nýsköpun sé ekki lúxus heldur nauðsyn og trú þeirri sannfæringu höfum við unnið markvisst að því að gera vistkerfi nýsköpunar á Íslandi sjálfbært og öflugt. Þetta höfum við gert, m.a. með nýsköpunarstefnu fyrir Ísland, með Kríu, nýsköpunarsjóði, til þess að stuðla að uppbyggingu vísisjóða, með Lóu, nýsköpunarstyrkjum fyrir landsbyggðina, með því að búa til svigrúm fyrir erlenda sérfræðinga til að starfa á Íslandi og styrkja þannig tengslanetið, með frekari heimildum fyrir lífeyrissjóði til að fjárfesta í vísisjóðum og með því að vera alltaf með hugarfar nýsköpunar í farteskinu.

Klasastefna fyrir Ísland styður við þetta allt. Með klasastefnu erum við komin með verkfæri til að takast á við meginþætti nýsköpunar á forsendum þeirra sem vinna að verkefnum hvar sem er á landinu. Hún er þáttur í þeirri heildarendurskoðun og samþættingu á umhverfi nýsköpunar sem nú stendur yfir. Hún er líka mikilvæg stoð fyrir samkeppnishæfni, verðmætasköpun og áframhaldandi sókn íslensks atvinnulífs. Klasastefnan rammar inn hlutverk hins opinbera og samspil og samstarf atvinnulífs, stofnana, fjárfesta og háskóla. Klasarnir tengja saman með öflugum hætti alla þessa aðila og gera þannig jarðveginn fyrir nýsköpun og framfarir bæði frjóan og öflugan.

Klasastefna fyrir Ísland er afrakstur vinnu sem leidd hefur verið af Ástu Kristínu Sigurjónsdóttur, framkvæmdastjóra Íslenska ferðaklasans. Stefnan var jafnframt unnin í víðtæku samstarfi og samráði við grasrót atvinnulífsins og fjölda aðila innan stjórnkerfisins og vil ég að sjálfsögðu nýta tækifærið hér og þakka kærlega fyrir þeirra framlag. Klasastefnan hefur beina skírskotun til nýsköpunarstefnu stjórnvalda til ársins 2030 og vísinda- og tæknistefnu 2020–2022. Hún hefur sömuleiðis margvíslegar tengingar við skýrslu forsætisráðuneytisins, Ísland og fjórða iðnbyltingin, stefnumótandi áherslur Íslandsstofu frá árinu 2019 og fleiri stefnur og áherslumál sem komið hafa fram á vegum stjórnvalda á síðustu árum.

Í verkfærakistu framfara og sóknar eru auðvitað til ótal verkfæri og aðferðir til þess að ná árangri, en samstarf innan klasa er eitt af þeim mikilvægari. Klasasamstarf gengur einfaldlega út á að skapa tengslanet og samstarf fyrirtækja í viðskiptalífinu sem byggir á mannauði, tækni, fjármagni og þekkingu. Klasi er hreyfiafl nýsköpunar í þeim geira sem hann myndast um. Klasar hraða þróun, vinna þvert á ólíka hagsmuni og brjóta niður hefðbundin norm eða ferli. Þeir krefjast samvinnu en þrífast best þar sem samkeppni milli aðila er rík og hagur eins er sjálfkrafa hagur annars.

Í klasastefnu er sett fram sú framtíðarsýn að árið 2030 verði Ísland á meðal fremstu þjóða heims hvað varðar sjálfbæra atvinnuuppbyggingu, samkeppnishæfni og almenna hagsæld samkvæmt öllum helstu mælikvörðum. Til þess að ná að uppfylla þessa sýn þarf markvissar áætlanir og samhæfðar aðgerðir allra aðila í atvinnulífinu með þátttöku stjórnvalda, vísinda og háskóla og rannsóknasamfélags auk nýfjárfestinga og öflugra frumkvöðla. Til að halda kúrsinum er mikilvægt að efla allsherjarkortlagningu á íslensku atvinnulífi og þeim lykilmælikvörðum sem segja til um umfang, árangur og samkeppnishæfni og þróun innan hverrar atvinnugreinar, svo við vitum einfaldlega betur punktastöðu hverju sinni.

Aðferðafræði klasasamstarfs er notuð í öllum helstu löndum sem Ísland ber sig saman við, í því skyni að vinna markvisst að endurnýjun í atvinnulífi og samstarfi um nýsköpun og tækniþróun. Í Noregi hafa stjórnvöld beitt sér fyrir klasasamstarfi undir merkjum Innovation Norway. Í Danmörku hafa klasar sömuleiðis verið öflugt verkfæri. Það er áhugavert að sjá að nýjustu klasarnir eru m.a. á sviði umhverfis- og orkutækni, líftækni, velferðartækni, stafrænnar tækni, fjártækni, róbóta- og drónatækni, leikjatækni og skapandi greina eins og kvikmyndagerðar og tónlistar. Allt eru þetta greinar þar sem nýsköpun er á heimsmælikvarða og þar sem tekist er á við samfélagslegar áskoranir með beinum hætti.

Covid-19 faraldurinn hefur breytt heimsmyndinni og efnahagsleg umskipti blasa við öllum þjóðum. Við þurfum að takast á við gjörbreyttar forsendur og innleiða nýja og betri starfshætti til að vinna einfaldlega hraðar og betur. Það er mikilvægt að halda því til haga að klasastefna snýst ekki um að hið opinbera ætli að leiða eða ákveða hvað er klasi eða að standa að stofnun þeirra allra. Hlutverk stjórnvalda er að móta framtíðarsýn og stefnu um hvernig best verði að því staðið að efla vistkerfi nýsköpunar og skapa umgjörð sem auðveldar nýsköpun og vöxt í fyrirtækjum og atvinnulífi. Til þess að geta gert það þarf að vera til staðar þekking hjá stjórnvöldum á nýsköpun og innleiðingu nýsköpunar, bæði í opinberum rekstri og einkarekstri. Stjórnvöld eiga alls ekki að skekkja markaðsaðstæður í þágu ákveðinna fyrirtækja, atvinnugreina eða tæknilausna, en þau hafa hlutverk við að hnika markaðnum í ákveðna átt í samræmi við stefnu sína, markmið og þær áskoranir sem brýnastar eru.

Verkfæri stjórnvalda til að styðja við lítil og meðalstór fyrirtæki í þessu skyni eru m.a. styrkir til nýsköpunar og tækniþróunar, opinbert fé sem veitt er í gegnum fjárfestingarsjóði og opinber útboðsstefna. Forsenda árangurs stjórnvalda er að stofnanir þeirra tileinki sér framsækna starfshætti, sveigjanleika og samvinnu þvert á stjórnsýslu og valdsvið með sama hætti og gert er í klasasamstarfi. Stjórnvöld geta sjálf mikið lært af klasasamstarfi heilt yfir. Stuðningur við klasasamstarf sem tæki í byggðaþróun byggist á því að þar hafi hið opinbera hlutverki að gegna við að brúa markaðsbrest og styrkja innviði og vistkerfi nýsköpunar um allt land. Svæðisbundið klasasamstarf geti reynst brú yfir í sterkara nýsköpunarumhverfi, aðgengi að þekkingu og reynslu af alþjóðlegu rannsókna- og nýsköpunarsamstarfi og sókn í alþjóðlega styrki og samstarfsaðila. Ég verð að segja það hér undir þessum lið að það er ótrúlega mikil gerjun og mikið að gerast úti um allt land í þessa veru. Lóa, hvatastyrkir, er í raun bara konkretaðgerð til þess að flýta og styðja við þessa góðu þróun. Í klasastefnu felst yfirlýsing um afstöðu stjórnvalda til klasasamstarfs sem verkfæris í þágu nýsköpunar.

Virðulegi forseti. Hér er fyrsta útgáfa klasastefnu fyrir Ísland og það er von mín og vissa að hún verði aðilum í breiðri virðiskeðju atvinnulífs og stjórnvalda innblástur og stuðningur til góðra verka.