151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

mótun klasastefnu.

522. mál
[16:00]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Við fjöllum hér um mikilvægt málefni, fyrir samtímann og fyrir framtíðina. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að leggja fram þá skýrslu sem um ræðir og öllum þeim sem sátu í starfshópnum. Það er ánægjulegt að þessi stefna liggi nú fyrir enda hefur líklega sjaldan verið jafn mikilvægt fyrir íslenskt samfélag að vel sé haldið utan um málefni nýsköpunar. Þetta er einnig mál sem þingið hafði frumkvæði að og er ástæða til að fagna að því hafi verið fylgt eftir. Nýsköpun er þeim kröftum og töfrum gædd að hún getur skapað nýjar aðferðir, nýjar afurðir og aukið samkeppnishæfni. Eins og fram kemur í skýrslunni er það hlutverk klasastefnu að benda á aðferðir og leggja til aðgerðir til að hraða vexti efnahags sem við hljótum einmitt að þurfa að stefna að nú um stundir. Til þess þurfum við að nýta okkur það sem klasasamstarf gerir svo vel — að efla samstarf og skapa hvata til að skapa ný tækifæri í samtali.

Herra forseti. Klasasamstarf má nýta sem drifkraft fyrir atvinnugreinar framtíðarinnar en einnig til að hraða breytingum. Þannig getum við nýtt klasa til að leiða þróun þvert á atvinnugreinar sem er algert lykilatriði. Þannig getum við dregið saman þekkingu úr ólíkum greinum, úr bæði atvinnulífi og fræðastarfi, til að skapa eitthvað alveg nýtt. Heimurinn er að breytast hratt og við þurfum á slíkum klösum að halda til að geta stuðla að heilbrigðu vistkerfi nýsköpunar sem er alþjóðlega samkeppnishæft þar sem allir þurfa að taka þátt; stjórnvöld, háskólaumhverfi, fyrirtæki, frumkvöðlar og fjárfestar.

Eitt sem bent er á í skýrslunni er að hefja þurfi allsherjarkortlagningu á íslensku atvinnulífi og lykilmælikvörðum. Mælikvörðum sem segja til um umfang, árangur, verðmætasköpun, samkeppnishæfni og þróun innan hverrar atvinnugreinar á tilteknum tíma. Þannig væru mælikvarðar eins og fjöldi starfa, fjöldi fyrirtækja, útflutningsverðmæti og heildarvelta mæld reglulega. Í skýrslunni er lagt til að sett verði upp sameiginlegt mælaborð leiðandi atvinnugreina sem ég held að sé mjög knýjandi að verði gert strax enda mikilvægt að við höfum skýra mynd af vistkerfi atvinnulífsins í heild til að geta tekið upplýstar ákvarðanir, ekki síst þegar vandi steðjar að. Ég vona að ráðherra sé tilbúinn til að setja slíka vinnu af stað nú þegar enda er þetta eitthvað sem ítrekað hefur verið rætt hér í þingsal að vanti tilfinnanlega.

Herra forseti. Hlutverk ríkisins þegar kemur að nýsköpun er gríðarlega mikilvægt og það er ekki síður mikilvægt að ríkisstofnanir tileinki sér framsækna starfshætti, sveigjanleika og samvinnu þvert á stjórnsýslu- og valdsvið með sama hætti og gert er í klasasamstarfi. Við þurfum að gefa stofnunum okkar slíkt svigrúm til að geta starfað meira saman og stutt betur við nýsköpun innan ríkisrekstrarins en við höfum verið að gera.

Herra forseti. Það er fjölmargt fleira sem ég hefði viljað koma inn á í þessari umræðu en langar þó að ljúka máli mínu á því að nefna mikilvægi þess að stefna sú sem hér er til umræðu verði innleidd og hún komi til framkvæmdar almennilega en verði ekki bara sett ofan í skúffu og geymd þar eins og allt of oft vill gerast. Til þess þurfum við að fá fram aðgerðaáætlun og fjármagna hana.

Ég spyr því hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) að lokum: Hvað er ráðherra að gera til að tryggja það? Og lykilspurningin er auðvitað: Hvernig á að innleiða þessa stefnu?