151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

mótun klasastefnu.

522. mál
[16:33]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari skýrslu og vil sérstaklega hrósa hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir frumkvæði í þessu máli. Ég er ósammála því að hið opinbera eigi ekki og hafi ekki hlutverki að gegna varðandi klasa og mér finnst ekki að við eigum að vera eitthvað feimin við það. Ég tel að nú standi svolítið upp á ríkið að móta stefnu sína dálítið skýrt, svo að ég noti það orð, og vera með raunhæfar og raunverulegar tillögur. Annars er háleitum markmiðum lýst í þessari skýrslu og hún vitnar um nútímalega og að mér finnst sterka sýn á atvinnulífið og mannlífið raunar eins og það getur þróast. Ég, rétt eins og hv. þm. Ólafur Ísleifsson, klóraði mér aðeins í hausnum yfir einni klausu þarna og velti henni svolítið fyrir mér. Hún er svona, með leyfi forseta:

„Klasasamstarfi má lýsa sem stefnumiðaðri aðferðafræði til að byggja brýr og styrkja tengingar og samvirkni innan vistkerfa nýsköpunar og atvinnulífs og til að vinna með stefnumiðuðum hætti að ákveðnum markmiðum um nýsköpun og vöxt í því skyni að hraða árangri.“

Þarna eru nokkuð mörg nafnorð en það er vit í þessu engu að síður og í þessari stuttu klausu eru þrjú lykilorð sem mig langar að draga aðeins fram í mínu stutta máli, þ.e. „aðferðafræði“, „brýr“ og „vistkerfi“.

Fyrsta orðið, „aðferðafræði“, lýsir vel nálgun klasastefnunnar og vísar til þess að hending ræður ekki för við þróun mála eins og stundum hefur verið heldur býr markviss sýn að baki því sem gera skal. Þetta er kannski einn meginvandinn í íslensku atvinnulífi, þ.e. skortur á skýrri sýn og markvissri stefnumótun við uppbyggingu á atvinnugreinum og að við lítum svolítið á tækifæri sem gefast eins og síldarhrotur eða lottóvinning. Sá nýjasti er blessuð loðnan sem nýlega fannst og alltaf talað um hana eins og lottóvinning í fjölmiðlum en síður um hitt að við fundum hana vegna þess að hennar var leitað á markvissan og þrotlausan hátt með vísindalegum og háþróuðum aðferðum.

Annað orðið er „brýr“. Þetta lykilorð lýsir aðferðafræði klasastefnunnar. Þegar vel tekst til er hún stefnumót margra greina og fyrirtækja og þar blandast saman ólíkur hugsunarháttur og aðferðir við að leysa mál. Ekki er litið á atvinnulífið sem samsafn af ólíkum og aðskildum greinum sem takist jafnvel á heldur er reynt að stuðla að því að þær blandist og móti hver aðra. Það ýtir undir skapandi hugsun.

Loks er það orðið „vistkerfi“. Það lýsir hugmyndafræði klasastefnunnar þar sem horft er á náttúruna og það hvernig vistkerfi hennar starfar þegar allt er með felldu og ólíkar tegundir geta búið saman í frjóu samlífi.

Framtíð okkar ræðst af því hvort okkur auðnast að skapa atvinnulíf og mannlíf sem byggist á grænum áherslum og skapandi hugsun þar sem fjölbreytni er höfð að leiðarljósi, vitandi að smátt er fagurt, og að atvinnulífið geti þá litið út eins og íslensk ilmandi lyngbrekka, þar sem dafna hlið við hlið tegundir eins og fjalldrapi, blóðberg, bláklukka, holtasóley, músareyra og lambagras.