151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

mótun klasastefnu.

522. mál
[16:53]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir mjög góðar umræður um þessa stefnu og ramma aðeins inn það sem er í mínum huga kjarni máls, sem er að klasasamstarf gengur út á að skapa tengslanet og samstarf fyrirtækja í viðskiptalífinu sem byggist á mannauði, tækni, fjármagni og þekkingu. Það er einfaldlega verkfæri. Við erum ekki með einhverja nýja uppfinningu. Við erum ekki að taka afstöðu til einhvers ákveðins geira. Þetta er verkfæri til að sækja fram. Þetta er viðurkennt verkfæri sem liggur fyrir að virkar mjög vel og þetta snýst í grunninn um samstarf. Auðvitað eru til margar útgáfur af því. Svokallaður ofurklasi inniheldur í raun allt í senn; einkageirann, háskólasamfélagið, stjórnvöld, frumkvöðla og fjármagnið eða fjárfesta. Svoleiðis blanda er ofboðslega sterk til að sækja fram.

Við erum í samtali við Samtök verslunar og þjónustu og VR sem hafa unnið saman að möguleika á klasa til að taka á þeim breytingum sem eru fram undan þegar kemur að stafrænni umbreytingu sem mun hafa mikil áhrif á marga hópa. Þar er spurning hvernig stjórnvöld geta stutt við það. Við erum með fjöldann allan af aðgerðum sem við höfum farið í, eru í vinnslu og eru á dagskrá, sem hanga saman við það sem fram kemur í þessari klasastefnu. Það kom fram áðan að við værum lítið að gera í uppbyggingu stafrænna smiðja. Það er svo sannarlega ekki rétt af því að við erum að gera samninga mjög víða og það tengist einmitt mikið svæðisbundnu klasasamstarfi sem er að spretta upp úti um allt land. Farið er yfir þessi dæmi um klasasamstarf svæðisbundið og einmitt líka taldir upp klasar sem eru nú þegar til.

Það þurfti að sannfæra mig aðeins um að ríkið hefði svona miklu hlutverki að gegna í að móta klasastefnu og við hv. þm. Willum Þór Þórsson áttum samtal um það. En það er kannski líka vegna þess að maður finnur hve margir stjórnmálamenn fara langt í því að þetta standi og falli með ríkinu, af því að það er ekki heldur rétt. Klasasamstarf og uppbygging á því stendur ekki og fellur með því hvað ríkið tekur mikinn þátt en ríkið hefur vissulega hlutverki að gegna. (Forseti hringir.) En það gengur ekki að þetta verði allt saman ríkisrekið heldur hefur reynslan sýnt að forsendur árangurs í klasasamstarfi eru drifkraftur og skuldbinding einkageirans. (Forseti hringir.) Í grunninn snýst þetta um samstarf. Þessi stefna er að mínu mati alveg skýr en það er svo sannarlega verk að vinna eins og kemur fram í stefnunni.