151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

barnalög.

11. mál
[16:56]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Páll Magnússon) (S):

Virðulegi forseti. Það er nokkur vandi á höndum því að nefndarálitið er svo langt í þessu mikilvæga og merkilega máli. Ég mun hlaupa á helstu atriðunum, ekki fara í umfjöllun nefndarinnar sem gerð eru mjög góð skil í nefndarálitinu á 12 eða 13 síðum heldur einbeita mér fyrst og fremst að þeim breytingartillögum sem meiri hlutinn leggur til að verði gerðar á frumvarpinu. Þetta er sem sagt frumvarp til laga um breytingu á barnalögum, nr. 76/2003, með síðari breytingum um skipta búsetu barns.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur, Berglindi Báru Sigurjónsdóttur og Svanhildi Þorbjörnsdóttur frá dómsmálaráðuneyti, Steinunni Bergmann frá Félagsráðgjafafélagi Íslands, Guðnýju Björk Eydal og Sigrúnu Júlíusdóttur frá félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands, Þóru Jónsdóttur frá Barnaheillum, Heiðu Björgu Pálmadóttur og Ingva Snæ Einarsson frá Barnaverndarstofu, Jón Pétursson og Guðrúnu Jónsdóttur frá Vestmannaeyjabæ, Valgerði Rún Benediktsdóttur og Maríu Kristjánsdóttur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Maríu Júlíu Rúnarsdóttur frá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, Elínu Ölmu Arthursdóttur og Helga Samúel Guðnason frá Skattinum, Indriða Örn Árnason, Soffíu Felixdóttur og Karen Benediktsdóttur frá Þjóðskrá Íslands, Önnu Láru Steindal frá Landssamtökunum Þroskahjálp, Sigurveigu Þórhallsdóttur frá umboðsmanni barna, Lúðvík Júlíusson og Dögg Pálsdóttur stundakennara við Háskólann í Reykjavík.

Nefndinni bárust umsagnir frá Barnaheillum, Barnaverndarstofu, Félagi um foreldrajafnrétti, félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands, Félagsráðgjafafélagi Íslands, Kvenréttindafélagi Íslands, Landssamtökunum Þroskahjálp, Lúðvík Júlíussyni, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Skattinum, sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, Tryggingastofnun ríkisins, umboðsmanni barna, Vestmannaeyjabæ og Þjóðskrá Íslands.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á barnalögum sem snúa að því að lögfesta ákvæði um heimild foreldra til þess að semja um skipta búsetu barns og helstu réttaráhrif þess, rýmka ákvæði laganna um framfærslu barns og meðlag og skýra ákvæði um þátttöku barns.

Hér fylgja í nefndaráliti nokkrar síður af helstu umfjöllunarefnum sem komu fyrir nefndina. Ég sleppi meginefni þess máls en vil þó fjalla um það sem tók býsna mikinn tíma og útheimti nokkra yfirlegu, þ.e. um þann hluta af þessu máli öllu saman sem snýr að fötluðum börnum.

Við meðferð málsins var bent á mikilvægi þess að fötluð börn nytu í raun sömu tækifæra til búsetu á heimilum beggja foreldra og yrði ekki mismunað á grundvelli fötlunar. Þá gæti aðstöðumunur milli foreldra og heimila leitt til takmarkaðrar umgengni barns við annað foreldri vegna skorts á nauðsynlegum hjálpartækjum eða á sértækri þjónustu vegna fötlunar. Mikilvægt sé að barn fái alla nauðsynlega þjónustu og stuðning á heimilum beggja foreldra sinna, óháð því hvort um sé að ræða lögheimili, búsetuheimili eða umgengnisheimili. Að auki þurfi að tryggja að foreldrar sem fara með sameiginlega forsjá, hvort sem þau gera með sér samning um skipta búsetu eða ekki, hafi jafnan aðgang að upplýsingum um fötluð börn sín.

Meiri hlutinn tekur undir að sérstaklega þurfi að huga að stöðu fatlaðra barna í þessu samhengi og telur mikilvægt að lög og reglur verði endurskoðuð sem fyrst, m.a. til að tryggja að þessi hópur barna njóti þess réttar að umgangast báða foreldra sína og nýta þau úrræði sem frumvarpið kveður á um. Fyrir liggur að breyta þurfi reglugerð um styrki vegna hjálpartækja ef heimilt á að vera að samþykkja eitt hjálpartæki af hverri gerð inn á bæði heimili barna í skiptri búsetu. Það þurfi hins vegar að meta umfang þeirrar breytingar og til hvaða hjálpartækja slíkar breytingar eigi að ná fyrst og fremst. Þá sé ljóst að um umtalsverðan kostnað geti verið að ræða. Meiri hlutinn bendir einnig á skýrslu starfshóps um hjálpartæki frá september 2019. Ein tillagna hópsins felur m.a. í sér að reglugerðir sem lúta að hjálpartækjum og skilgreiningu á hugtakinu hjálpartæki verði endurskoðaðar í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og bent er á fleiri reglugerðir sem þarfnast endurskoðunar og samræmingar. Með hliðsjón af framangreindu áréttar meiri hlutinn mikilvægi þess að regluverk verði endurskoðað fyrir gildistöku laganna enda mikilvægt að börn og foreldrar geti nýtt úrræðið frá upphafi, óháð stöðu.

Ég ætla ekki að gera lengra mál um efnisumfjöllun nefndarinnar heldur snúa mér að breytingartillögum meiri hlutans. Þær lúta að brottfalli samnings um skipta búsetu barns, þ.e. b-liður 6. gr., og lögum um lögheimili og aðsetur, 5. tölul. 30. gr.

Í b-lið 5. tölul. 30. gr. frumvarpsins kemur m.a. fram að ekki sé unnt að flytja annaðhvort lögheimili eða búsetuheimili barns úr landi nema Þjóðskrá Íslands hafi borist tilkynning um brottfall samnings eða dómsáttar um skipta búsetu.

Nefndinni var bent á að við flutning frá Íslandi til annarra Norðurlanda gildi Norðurlandasamningur um almannaskráningu. Samkvæmt samningnum sé það innflutningsríkið sem taki ákvörðun um skráningu samkvæmt þeim lögum sem þar gildi. Þegar innflutningsríkið tilkynni um flutning einstaklinga beri brottflutningsríkinu að breyta skráningu til samræmis við það, enda séu þeir skráðir í innflutningsríkinu. Staðfesting um brottfall samnings um skipta búsetu þyrfti því að berast Þjóðskrá Íslands áður en flutt væri frá Íslandi til annarra Norðurlanda.

Að mati meiri hlutans þykir rétt að leggja til breytingar á 6. gr. og b-lið 5. tölul. 30. gr. frumvarpsins og taka af öll tvímæli um að samningur um skipta búsetu barns falli sjálfkrafa úr gildi ef annað foreldri flytur úr landi. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að forsendur skiptrar búsetu séu ekki fyrir hendi ef foreldrar barns búa hvort í sínu landinu. Meiri hlutinn telur því eðlilegt að gera ráð fyrir að samningar um skipta búsetu falli úr gildi við þessar aðstæður án þess að sýslumaður þurfi sérstaklega að staðfesta brottfall þeirra.

Meiri hlutinn áréttar samt sem áður að öðru foreldri er óheimilt að fara með barn úr landi án samþykkis hins foreldris ef forsjá barns er sameiginleg. Ef samið hefur verið um skipta búsetu barns og annað foreldri er ósátt við fyrirhugaðan flutning hins foreldris úr landi má gera ráð fyrir að óskað verði sérstaklega eftir brottfalli samningsins. Í tilvikum þegar foreldri eða foreldrar óska ekki eftir brottfalli muni samningur eigi að síður falla sjálfkrafa úr gildi óháð því til hvaða lands foreldrið flytur. Telja verður að Norðurlandasamningur um almannaskráningu hafi fyrst og fremst áhrif á feril skráningar en ekki efnisleg réttaráhrif. Samkvæmt þeirri breytingu sem meiri hlutinn leggur til má líta svo á að ef annað foreldri flytur til einhvers af Norðurlöndunum þá falli samningur um skipta búsetu sjálfkrafa úr gildi þegar það foreldri óskar skráningar í innflutningsríkinu. Þjóðskrá Íslands breytir þá skráningu hér á landi til samræmis þegar innflutningsríkið tilkynnir um flutning. Ef annað foreldri flytur til lands utan Norðurlandanna má á hinn bóginn líta svo á að samningur falli sjálfkrafa úr gildi þegar foreldrið tilkynnir Þjóðskrá Íslands um flutning. Þá má geta þess að sjálfkrafa brottfall samnings um skipta búsetu við flutning annars foreldris úr landi þykir styrkja sjónarmið sem snúa að mögulegu ólögmætu brottnámi barns úr landi.

Réttur barns til að tjá sig sem varðar 8. og 13. gr. frumvarpsins: Í 8. og 13. gr. frumvarpsins er kveðið á um að gefa skuli barni kost á að tjá sig um mál í samræmi við aldur þess og þroska. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að orðalag um rétt barns til að tjá sig skv. 8. og 13. gr. frumvarpsins væri ekki að fullu í samræmi við orðalag 12. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Samkvæmt barnasáttmálanum skuli barni gefinn kostur á að tjá skoðun sína í öllum málum sem það varði, en að tekið verði tillit til skoðana barns eftir aldri og þroska. Þannig sé það ekki háð aldri og þroska barns hvort barni sé gefinn kostur á að tjá sig um mál sem það varðar. Aftur á móti komu fram sjónarmið um að orðalagið væri í samræmi við barnasáttmálann.

Réttur barns til að tjá sig ætti í sjálfu sér að leiða af 1. gr. barnalaga og 12. gr. barnasáttmálans. Meiri hlutinn bendir þó á að í framkvæmd hafi yngri börn ekki alltaf fengið að tjá sig og því telur meiri hlutinn vera ástæðu til að skerpa á orðalaginu enn frekar en lagt er til í frumvarpinu. Meiri hlutinn telur mikilvægt að tryggja rétt barns til að tjá sig og með því að samræma orðalagið enn frekar við barnasáttmálann geti þátttökuréttur barna í þessu samhengi aukist. Að því sögðu leggur meiri hlutinn til orðalagsbreytingar á 8. og 13. gr. frumvarpsins.

Þá leggjum við til breytingartillögu við 22. gr. Í 3. mgr. þeirrar greinar kemur fram að foreldrar geti óskað staðfestingar á samningi um meðlag sem ákveðið hefur verið samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins. Á þetta einungis við ef barn á fasta búsetu hjá öðru foreldra sinna. Í ákvæðinu virðist hins vegar hafa láðst að taka fram að foreldrar geti einnig gert sátt fyrir dómi um greiðslu meðlags, líkt og kveðið er á um í 55. gr. barnalaga, enda geta meðlagsmál komið til kasta dómara í vissum tilvikum. Fari svo að samkomulag takist fyrir dómi um meðlagsgreiðslur er hagfelldast að úr málinu verði leyst með dómsátt. Til að taka af öll tvímæli um að foreldrar geti einnig gert sátt fyrir dómi um greiðslu meðlags leggur meiri hlutinn til breytingar þess efnis.

Einnig leggur meiri hlutinn til breytingar á 24. gr. Í a-lið þeirrar greinar kemur fram sú meginregla að ef barn á fasta búsetu hjá öðru foreldra sinna og foreldra greinir á um skiptingu framfærslukostnaðar geti sýslumaður úrskurðað það foreldri sem barn býr ekki hjá til að greiða meðlag með barninu. Meiri hlutinn bendir á að foreldra getur ýmist greint á um skiptingu framfærslukostnaðar og annað þeirra valið að krefjast úrskurðar um meðlag eða foreldrar verið sammála um að greitt verði meðlag en greint á um fjárhæð meðlagsins. Meiri hlutinn leggur því til orðalagsbreytingu á ákvæðinu í samræmi við aðrar breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu, þannig að í stað „ágreinings um skiptingu framfærslukostnaðar“ komi „ágreinings um framfærslu“.

Þá leggur meiri hlutinn til að orðið „þó“ í 2. málsl. 1. mgr. 57. gr. barnalaga falli brott. Ákvæðið um tímamörk við ákvörðun meðlags er að öðru leyti efnislega óbreytt. Meiri hlutinn áréttar sérstaklega að ákvæðið á einungis við um frumákvörðun meðlags og getur því ekki átt við þegar fyrir liggur samningur um framfærslu barns eða dómsátt um meðlag. Ákvæði 2. mgr. 64. gr. laganna á við þegar krafist er breytinga á fyrirliggjandi samningi foreldra um skiptingu framfærslu eða meðlag eða dómsátt um meðlag. Með þeirri breytingu sem hér er lögð til verður betra samræmi milli ákvæða 57. og 64. gr. laganna að þessu leyti.

Þá leggjum við einnig til breytingar eða öllu heldur nýja 28. gr.

Ákvæði 64. gr. barnalaga afmarkar nánar skilyrði þess að krefjast megi breytinga á fyrirliggjandi samningi eða dómsátt. Þá fjallar ákvæði 65. gr. um breytingar á úrskurði eða dómi.

Meiri hlutinn leggur til breytingu á 1. mgr. 64. gr. laganna sem er ætlað að árétta að ákvæðið eigi við um alla samninga foreldra um framfærslu, sbr. 55. gr., þ.e. þegar samið hefur verið um skiptingu kostnaðar vegna framfærslunnar eða samið um greiðslu meðlags. Ef foreldra greinir á um breytingar á framfærslu barns getur sýslumaður samkvæmt barnalögum þó eingöngu úrskurðað um greiðslu meðlags, óháð því hvers konar samningur liggur þegar fyrir, sbr. 1. mgr. 57. gr. laganna. Eitt af skilyrðum 1. mgr. 64. gr. laganna er að aðstæður hafi breyst verulega. Rétt er að gera ráð fyrir að undir það geti fallið sú staða að foreldra greini á um hvort samningur um skiptingu kostnaðar vegna framfærslu barns hafi verið efndur með þeim hætti sem samningurinn kveður á um. Ef svo er ekki getur verið ástæða til þess að gera breytingar og úrskurða í stað þess um greiðslu meðlags.

Í 2. mgr. 64. gr. laganna er tekið fram að ákvörðun um meðlag, sem fallið er í gjalddaga áður en krafa er uppi höfð, verði ekki breytt nema alveg sérstakar ástæður leiði til þess. Þeim breytingum sem meiri hlutinn leggur til á 2. mgr. er einnig ætlað að árétta að ákvæði 64. gr. eigi við um alla samninga foreldra um framfærslu skv. 55. gr. Hefur það í för með sér samsvarandi efnisreglu og nú gildir, að þegar krafist er breytinga á fyrirliggjandi samningi verði ekki úrskurðað um meðlag aftur í tímann nema sérstaklega standi á. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til barnalaga er tekið fram að grafast þurfi fyrir um það hvers vegna meðlagskrafa var ekki sett fram fyrr og áréttað að ljóst þyki að skilyrði ákvæðisins um breytingu aftur í tímann séu mjög ströng, sbr. orðalagið „alveg sérstakar ástæður“. Gert er ráð fyrir að hið sama eigi hér við. Þó ber að árétta að taka má tillit til þess að munur er á samningum um skiptingu framfærslukostnaðar og samningum um meðlag þegar kemur að innheimtuúrræðum. Foreldri sem krefst breytinga á staðfestum samningi um meðlag hefur þannig haft mun betri tök á að innheimta framfærslu barnsins úr hendi hins. Ef foreldri krefst þess að úrskurður um meðlag komi í stað samnings um skiptingu framfærslukostnaðar gæti þurft að líta sérstaklega til þess, þegar metið er hvort meðlag verði ákvarðað aftur í tímann, hvort og hversu lengi það liggi fyrir að sá sem krafa beinist að hafi látið hjá líða að sinna framfærsluskyldu sinni.

Að síðustu er það breyting á 30. gr.

Í umsögn Skattsins var bent á að skerpa þyrfti á forsendum tekjuskerðingar í b-lið 7. tölul. 30. gr. frumvarpsins og færa til samræmis við umfjöllun í greinargerð með frumvarpinu um að útreikningur tekjuskerðingar væri aðskilinn fyrir hvort foreldri um sig og miðaðist við fjölskyldustöðu hvors þeirra um sig í árslok. Meiri hlutinn telur þær breytingar til bóta og leggur til breytingar þess efnis.

Að síðustu vil ég rétt minnast á heildarendurskoðun.

Ekki liggur alveg fyrir hvaða áhrif fyrirkomulag um skipta búsetu og framkvæmd þess hafi á kynin og ólíka hópa og í þeim efnum vísar meiri hlutinn m.a. til umfjöllunar um fyrirkomulag á útreikningi barnabóta í tengslum við skipta búsetu. Þrátt fyrir framangreint telur meiri hlutinn mikilvægt að frumvarpið verði að lögum þar sem það felur í sér þarfar breytingar. Áður hefur komið fram að meiri hlutinn telur vera tilefni til að barnalögin sæti heildarendurskoðun. Mikilvægt er að innan þriggja ára frá samþykkt frumvarpsins fari fram endurskoðun, einkum á fyrirkomulagi um skipta búsetu og framkvæmd þess, eins og með útreikning barnabóta, en áréttar í þessu samhengi að fleiri atriði þurfi að taka til endurskoðunar, m.a. í ljósi laga um kynrænt sjálfræði og atriða sem snúa að framfærslu og meðlagi. Meiri hlutinn leggur til að við barnalögin verði bætt bráðabirgðaákvæði þess efnis og leggur jafnframt til að dómsmálaráðherra kynni niðurstöður heildarendurskoðunar eigi síðar en á haustþingi 2024.

Að öðru leyti leggur meiri hlutinn til breytingar sem eru tæknilegs eðlis og er ekki ætlað að hafa áhrif á efni frumvarpsins. Með hliðsjón af framangreindu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerðar eru tillögur um á sérstöku þingskjali og fylgja með þingmálinu.

Ég vil geta þess að hv. þingmenn Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, Guðmundur Andri Thorsson og Katla Hólm Þórhildardóttir tilheyra meiri hlutanum með ákveðnum fyrirvörum sem umræddir hv. þingmenn gera væntanlega grein fyrir á eftir.

Undir þetta álit ritar sá sem hér stendur, Páll Magnússon, og hv. þingmenn Guðmundur Andri Thorsson, með fyrirvara, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Birgir Ármannsson, Katla Hólm Þórhildardóttir, með fyrirvara, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, með fyrirvara.