151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

barnalög.

11. mál
[17:33]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég vil eins og aðrir þingmenn fagna þessu máli og fagna því að það sé komið út úr nefnd. Einnig var mælt fyrir þessu máli á síðasta þingi en ekki náðist að klára það þá. Að við sitjum hér með nefndarálit eykur mér von í brjósti um að við náum að klára þetta mál hið fyrsta því að það er mjög mikilvægt. Ég held að við verðum að sjá til þess að það verði að lögum á þessu þingi.

Mig langar þó að því sögðu að tala líka um nokkuð sem ég hef oft talað um í þessum ræðustól, og nota hvert einasta tækifæri til þess, sem eru ekki bara lögin sjálf og sá rammi sem við búum til hér, heldur líka framkvæmdin. Þegar kemur að börnum sem búa á tveimur heimilum, eiga foreldra sem hafa skilið og fara sameiginlega með forsjá, þá er eitthvað mikið að í kerfinu okkar. Eitt er lagaramminn og hvernig höldum utan um það, en hitt er framkvæmdin. Það er algerlega óásættanlegt að við séum enn að vinna eftir einhverju gömlu kerfi.

Þjóðskrá bjó til á sínum tíma eitthvað sem heitir fjölskyldunúmer og ætlaðist líklega aldrei til þess að það yrði notað eins og það er notað í dag. En það er engu að síður þannig að opinberar stofnanir, bankastofnanir og tryggingafélög og aðrir á markaði nota þessar upplýsingar úr þjóðskrá og skilgreina þá barnið undir þessu fjölskyldunúmeri. Fjölskyldunúmer er elsta kennitala á heimili og það að Tryggingastofnun sendi bréf heim á lögheimili barns stílað á elstu kennitöluna á heimilinu, sem er kannski ekki forsjárforeldri, getur verið maki annars forsjárforeldrisins, og fær slíkar upplýsingar, er auðvitað brot á persónuvernd barnsins.

Ég hef hér svar frá hæstv. heilbrigðisráðherra þar sem ég spurði út í þessa þætti. Ég held að öllum sé vandamálið ljóst en það þarf bara að leysa það. Að sama skapi þekkir maður umræðuna um að foreldri fer með barnið sitt í banka og ætlar að stofna bankabók en getur það ekki vegna þess að barnið er ekki með skráð lögheimili á sama stað og foreldrið. Engu að síður er foreldrið skráð sem forsjárforeldri. Það er algjörlega óásættanlegt, virðulegi forseti. Það þarf ekki að breyta lögum til að laga þetta. Þetta þarf bara að laga í framkvæmdinni og ég veit það. Ég veit að við erum hér með mál sem við höfum afgreitt hérna sem varðar þjóðskrá og ég veit að þar er verið að vinna í tölvukerfinu. Vonandi sjáum við birtast mjög fljótlega breytingar á því og þá dettur hið svokallaða fjölskyldunúmer út. En það er ekki nóg því að allir sem taka við upplýsingum úr þjóðskrá þurfa að geta unnið með nýtt kerfi og nýja upplýsingagjöf.

Ég nota hvert tækifæri sem tengist börnum til að benda á þetta því að dæmin eru mýmörg. Okkur hættir oft til, eins og í þessu máli, sem er bara mjög gott, að flækja það því að það eru alltaf einhver einstök dæmi sem eru aðeins öðruvísi og þarf að vinna með og flækja málin enn frekar. Það er væntanlega ástæðan fyrir því að það náðist ekki að klára þetta á síðasta þingi. En ég vona innilega að við náum að klára það núna því að langflest málin eru tiltölulega einföld og þar af leiðandi er óásættanlegt hversu langur biðtíminn er hjá sýslumanni eftir því að staðfesta það þegar foreldrar skilja og staðfesta þá sameiginlega forsjá. Það þarf að ganga hraðar fyrir sig. Svo átta ég mig alveg á því að þarna eru mörg flókin mál. En langstærsti hlutinn er nú þannig, sem betur fer, að foreldrar skilja í eins góðu og hægt er og hafa alla vega ávallt hagsmuni barnsins að leiðarljósi.

Okkur er tamt að tala um réttindi barnsins. Þau eru mjög mikilvæg. Það er t.d. mjög gott að sjá það í þessu frumvarpi og þessari umfjöllun hér að það á að hlusta á barnið og leyfa því að tjá sig, auðvitað háð þroska þess og öðru. Annað eru réttindi barnsins og við eigum alltaf að hafa í huga hvað er barninu fyrir bestu og horfa eftir sýn þess á það, en hitt eru skyldur foreldra. Það er óásættanlegt þegar foreldrum eru í rauninni sett takmörk við að sinna skyldum sínum. Foreldrar bera ábyrgð á börnum sínum, í það minnsta til 18 ára aldurs lögum samkvæmt og oft svolítið fram yfir það, óháð því hvort foreldrarnir eru enn þá í sambúð eða ekki. Ég ítreka enn að við þurfum að huga að þessu.

Maður sér svo hvað flækjufæturnir verða margir í svona málum því að hér erum við með frumvarp frá hæstv. dómsmálaráðherra. Við erum með breytingartillögur sem heyra í rauninni undir hæstv. félags- og barnamálaráðherra, og líklega er það sem flækir svona mál hvað mest millifærslukerfið okkar og skattkerfin sem heyra þá undir hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. En það er okkar hlutverk hér að opna á þessi síló og sjá til þess að við afgreiðum alltaf málin þannig að réttindi barnsins séu höfð að leiðarljósi og að foreldrar hafi tækifæri til að sinna skyldum sínum. Á sama tíma og ég vona að við getum klárað þetta mál, sem er mjög brýnt, vil ég líka hvetja okkur öll til þess að sinna eftirlitshlutverki okkar þannig að framkvæmdarvaldið, ráðuneytin og stofnanir undir þeim, hafi tæki og tól til að vinna í samræmi við vilja löggjafans, sem er auðvitað sá að fólki sé ekki mismunað þótt það ákveði að skilja að skiptum og það hafi þessi tækifæri til að sinna sínum skyldum sem foreldri.