151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

Neytendastofa o.fl.

344. mál
[17:53]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held ekki að nokkur einasti maður mótmæli því að sjálfsagt sé að fara yfir fjársýslu stofnana. Hins vegar finnst mér niðurstaðan og undirbúningur þessa frumvarps algerlega óásættanlegur, satt að segja. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki að áður en farið sé út í svona breytingar hefði verið skynsamlegra að setja niður stefnumörkun fyrir málefni neytenda sem kallað hefur verið eftir mjög lengi. Hér er m.a. þingmál sem hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir er fyrsti flutningsmaður að, og meðflutningsmenn með henni eru úr öllum flokkum, þar sem einmitt er rætt um slíkt. Neytendasamtökin hafa áhyggjur af því að áherslur stofnunar með eins stór og ólík verkefni og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun mun hafa eftir þessa breytingu verði ómarkvissar og lítil samlegðaráhrif af þeim, þ.e. þessum ólíku verkefnum. Ekkert bendi til þess að sérþekking á öryggi neytendavara og þjónustu eflist og verkefnamiðaðri samlegð náist með því að færa t.d. öryggi leikfanga, reiðhjóla og snuða frá Neytendastofu, eða þá rafretta eins og lagt er til.

Getur hv. þingmaður tekið undir með mér og Neytendasamtökunum um að frekar erfitt sé að sjá samlegðaráhrifin sem þarna eiga að nást? Þau eru a.m.k. ekki augljós. Og hvað vill hv. þingmaður segja um skort á stefnumörkun sem undirbyggir þessar breytingar?