151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

Neytendastofa o.fl.

344. mál
[17:55]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað er endalaust hægt að deila um hvernig hlutum sé best fyrir komið. Ég er algerlega sannfærður um að þær breytingar sem verið er að gera hér séu til hins betra og t.d. sé skynsamlegt að færa stjórnsýsluverkefni á sviði mælifræði vöruöryggismála og opinberrar markaðsgæslu til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, það falli mjög vel að starfsemi þeirrar stofnunar og verði til þess að efla hana. Það sama á við um traustþjónustu og rafræna auðkenningu. Auðvitað er eðlilegra að það sé hjá Póst- og fjarskiptastofnun. Þar er verið að fara í gegnum lagaleg atriði hjá umhverfis- og samgöngunefnd eins og ég nefndi áðan. Það er alveg ljóst að þegar unnið er að því að endurskipuleggja stofnanir koma ýmis ólík sjónarmið upp. Hlutverk okkar hér er að taka síðan ákvörðun á grundvelli þeirra sjónarmiða. Ég segi: Ég er sannfærður um að við séum að gera rétt. Ég hefði kannski viljað sjá að sú vinna sem er í gangi væri komin lengra en ég held samt sem áður að þetta séu skynsamleg skref. Hér er verið að taka skref eitt sem er að færa ákveðin verkefni sem augljóslega eiga fremur heima hjá tveimur öðrum stofnunum (Forseti hringir.) og þau munu styrkjast. Síðan móta menn stefnuna út frá því og þar með (Forseti hringir.) framtíð Neytendastofu.