151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja.

570. mál
[18:12]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja. Frumvarpið er á þskj. 962, mál nr. 570.

Frumvarpið felur í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins sem fjallar um rétthæð ótryggðra skuldagerninga við skila- og slitameðferð. Á grundvelli tilskipunarinnar skulu tilteknar kröfur vegna innstæðna hafa aukinn forgang umfram almennar kröfur. Þá skal nýr forgangsflokkur undirskipaðra skuldagerninga vera réttlægri en almennar kröfur. Jafnframt er þar kveðið á um mismunandi rétthæð á fjármagnsgerningum og víkjandi lánum. Frumvarpið endurspeglar þessar reglur en einnig viðbótarreglur um rétthæð á ýmsum öðrum kröfum.

Virðulegi forseti. Ef ég vík að þeim viðbótarreglum sem fram koma í frumvarpinu og eru umfram efni tilskipunarinnar þá eru þær tvíþættar. Í fyrsta lagi ber að nefna að reglur um rétthæð krafna, samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti, eru hluti af heildstæðri forgangsröð krafna samkvæmt þessu frumvarpi. Í öðru lagi vil ég nefna viðbótarreglur um rétthæð krafna vegna þeirra innstæðna sem ekki er fjallað um í tilskipuninni en hún kemur ekki í veg fyrir að viðbótarreglur gildi um rétthæð annarra krafna en þar er fjallað um.

Með hliðsjón af því að allar innstæður hafa verið rétthærri en almennar kröfur í forgangsröð undanfarinn áratug lagði ég áherslu á það við vinnslu frumvarpsins að slíkt fyrirkomulag gæti haldist óbreytt. Að beiðni ráðuneytisins vann Seðlabanki Íslands greiningu á álitaefninu um aukna rétthæð allra innstæðna og var niðurstaða bankans í samræmi við áherslur mínar um að rétt sé að veita öllum innstæðum forgang umfram almennar kröfur. Mig langar í þessu samhengi að benda á að fjallað er um röksemdir bankans fyrir því að veita öllum kröfum um innstæður forgang umfram almennar kröfur í kafla 3.1. í frumvarpinu.

Í frumvarpinu er því lagt til að svigrúm í Evrópureglunum verði nýtt og kveðið á um aukinn forgang allra krafna vegna innstæðna. Slíkur forgangur er þó lagskiptur þar sem kröfur vegna tryggðra innstæðna eru rétthæstar og kröfur vegna innstæðna sem ekki eru tryggingarhæfar eru réttlægstar. Þar á milli eru svo annars vegar kröfur vegna innstæðna hjá einstaklingum, litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem eru umfram tryggðar innstæður og hins vegar kröfur vegna innstæðna stórra fyrirtækja sem eru umfram tryggðar innstæður.

Virðulegi forseti. Þau ákvæði sem lögð eru til í frumvarpinu munu hafa jákvæð áhrif á fjármálafyrirtæki og lánardrottna. Reglur um forgangsröð krafna eru mikilvægar fyrir réttarstöðu lánardrottna þar sem þær leiða af sér fyrirsjáanleika um meðferð krafna þeirra ef fjármálafyrirtæki verður tekið til skila- eða slitameðferðar. Einnig vil ég nefna að efni frumvarpsins tryggir skýrleika varðandi skuldbindingar sem geta uppfyllt lágmarkskröfu um eiginfjárgrunn og hæfar skuldbindingar. Sú krafa kveður á um nýja samsetningu eigin fjár sem ákvörðuð verður af Seðlabanka Íslands fyrir tiltekin fjármálafyrirtæki samkvæmt lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja.

Að endingu vil ég árétta að aukinn forgangur allra innstæðna er til hagsbóta fyrir innstæðueigendur og til þess fallinn að viðhalda trausti á fjármálakerfinu.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar að aflokinni þessari umræðu og svo til 2. umr. hér í þinginu.