151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar.

590. mál
[18:38]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Birgir Ármannsson) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar, sem flutt er af meiri hluta hv. allsherjar- og menntamálanefndar. Að því standa, eins og kemur fram á þingskjali, auk mín, Páll Magnússon, Guðmundur Andri Thorsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir og Þorsteinn Sæmundsson, átta af níu fulltrúum í hv. allsherjar- og menntamálanefnd.

Frumvarpið er tiltölulega einfalt að allri gerð. Tilefni þess er að á síðasta ári, með lögum nr. 57/2020, var komið á fót nýju úrræði, tímabundinni heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar atvinnufyrirtækja vegna aðstæðna sem skapast höfðu í kjölfar kórónuveirufaraldursins. Þar var með öðrum orðum um að ræða eina af fjölmörgum aðgerðum stjórnvalda og þingsins til að mæta tímabundnum erfiðleikum fyrirtækja sem höfðu lent í því að missa stóran hluta eða jafnvel allan rekstrargrundvöll í ljósi þeirra aðstæðna sem uppi voru og að sjálfsögðu átti það einkum við um ferðaþjónustufyrirtæki og fyrirtæki í tengdum greinum.

Úrræðið felur í sér að með tiltölulega einföldum hætti er hægt að setja í raun og veru fyrirtækin í frost í ákveðinn tíma á meðan mestu erfiðleikarnir ganga yfir. Hugmyndin var sú að það ætti að duga í þann tíma sem aðstæður væru uppi, einkum með tilliti til þess að ferðamenn væru ekki að koma til landsins og ferðaþjónustan þar af leiðandi í lamasessi.

Í 2. gr. laganna frá því í fyrrasumar komu fram ýmis skilyrði sem verða að vera fyrir hendi til þess að fallist sé á slíka heimild og þau varða lögaðilann sem um er að ræða. Þar skiptir kannski mestu máli að ljóst sé að rekstrarvandann megi rekja til faraldursins en ekki annarra aðstæðna. Síðan er tilgreint að tekjufall verði að nema 75% eða meiru af rekstrartekjum tiltekins viðmiðunartímabils frá árinu á undan.

Fleiri skilyrði eru tilgreind en til að gera langa sögu stutta var gert ráð fyrir því í lögunum sem samþykkt voru síðasta sumar að heimild til að sækja um úrræðið rynni út fyrir 1. janúar 2021. Eins og kemur fram í greinargerð miðaðist sú tímasetning að nokkru leyti við það að síðasta vor og sumar vonuðust flestir til þess að þeir fjárhagslegu erfiðleikar sem rekja mætti til kórónuveirufaraldursins myndu eingöngu standa í nokkra mánuði og að atvinnulífið myndi tiltölulega fljótt taka við sér aftur, þar á meðal ferðaþjónustan. Þess vegna var heimildin gerð tímabundin og miðuð við áramótin 2020–2021.

Eins og kemur fram í greinargerðinni hefur hins vegar komið í ljós að áhrif faraldursins vara mun lengur en búist var við í upphafi og ljóst að ferðaþjónustan og tengd starfsemi þarf áfram að glíma við afleiðingar faraldursins langt fram eftir þessu ári. Jafnvel þó að við gefum okkur að bjartsýnustu spár rætist um bóluefnadreifingu hér á landi og erlendis og möguleika á ferðalögum sem geta komið í kjölfarið held ég að óhætt sé að reikna með að stór hluti þessa árs verði mjög erfiður fyrir mörg fyrirtæki í ferðaþjónustu. Það var því mat meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar að það væri tilefni til þess að bjóða áfram upp á þetta úrræði sem eitt af mörgum úrræðum sem fyrirtækjum sem eru í vanda af þessum sökum standa til boða. Þess vegna gerum við í frumvarpinu tillögu um að búið verði til nýtt viðmiðunartímabil, nýr gluggi, fyrir fyrirtæki sem ekki hafa leitað inn í þetta úrræði áður til þess að gera það út þetta ár. Þá erum við að tala um að unnt verði að sækja um greiðsluskjól, eins og þetta úrræði hefur verið nefnt, til 1. janúar 2022, þ.e. út þetta ár.

Samhliða því gerum við ráð fyrir að viðmiðunartímabilið sem lagt er til grundvallar þegar verið er að meta tekjufallið — að þar verði bætt við ákvæði þar sem heimilt verði að miða við tiltekið tímabil á árinu 2019 vegna þess að það liggur auðvitað fyrir að ef miðað væri við síðasta ár, þ.e. árið 2020, þá væri verið að bera saman við tímabil þar sem fyrirtækin voru hvort sem er í lamasessi. Ef úrræðið á að ná tilgangi sínum fyrir þau fyrirtæki sem hugsanlega koma til með að nýta sér það eftir gildistöku laganna og til ársloka þarf að vera heimilt að miða ekki við síðasta ár heldur árið 2019, sambærilegt viðmiðunartímabil 2019. Þannig teljum við að þetta úrræði muni áfram standa til boða fyrirtækjum sem uppfylla að öðru leyti þau skilyrði sem núgildandi lög að þessu leyti kveða á um.

Ég ætla ekki að hafa orð mín fleiri, herra forseti. Við munum taka þetta til umfjöllunar í allsherjar- og menntamálanefnd. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til nefndarinnar til umfjöllunar. En í ljósi þess að um einfalda breytingu er að ræða sem hefur ekki áhrif á grundvöll greiðsluskjólsins eða þessa úrræðis sem slíks, hér er ekki verið að breyta eðli þess á neinn hátt heldur aðeins verið að færa til dagsetningar, þá gerum við ráð fyrir, herra forseti, að ekki þurfi langa eða viðamikla umfjöllun í nefndinni en munum þó taka það til umfjöllunar áður en því verður vísað til 2. umr.