151. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2021.

störf þingsins.

[10:34]
Horfa

Katla Hólm Þórhildardóttir (P):

Virðulegur forseti. Í dag er síðasti dagurinn minn í vinnu fyrir þjóðina í þessu húsi. Af því tilefni vil ég fjalla um vandamálið sem felst í rofinu milli þings og þjóðar. Nýjustu kannanir sýna að traust á Alþingi er rúmlega 30%, sem er alls ekki nóg. Við erum hér í umboði þjóðarinnar en stór hluti hennar treystir okkur ekki. Það er ekki undir þjóðinni komið að ráða bót á því vandamáli. Það er undir Alþingi komið að bæta þetta traust, að byggja upp þetta samband sem er undirstaða starfa okkar á Alþingi. Það gengur ekki fyrir alþingisfólk að vita af þessum bresti og yppta bara öxlum og láta eins og það skilji ekki hvað er uppi. Það þarf að endurhugsa hvernig ríkisstjórn og stjórnarandstaða ætla að bæta starfshætti þingsins til þess að byggja upp traust og til þess að vera hér í fullu og heilbrigðu umboði þjóðarinnar. Þjóðin kaus okkur. Við erum í þessari forréttindastöðu vegna hennar og okkur ber skylda til að sýna henni virðingu með því að bera ábyrgð á hegðun okkar og gjörðum.

Síðast í gær heyrði ég frá kjósanda að það skipti ekki máli hvað gerðist hér í þessu húsi því þau sem stjórna taki aldrei ábyrgð á gjörðum sínum. Er furða að þorri þjóðarinnar treysti ekki Alþingi? En svo er hitt, kæru meðborgarar mínir: Það er undir okkur komið í næstu kosningum að kjósa ekki fólk sem hefur orðið uppvíst að endurteknu dómgreindarleysi og spillingarhegðun á vettvangi ykkar. Það er ekki svo að allt stjórnmálafólk gerist sekt um þetta. Hér starfar þvert á flokka fjölmargt gott fólk með heiðarleika og einlægni í farteskinu. Það er kominn tími á að gefa Sjálfstæðisflokknum frí og það er ekkert heilbrigt við það að einn flokkur hafi svo mikil völd í svo langan tíma.

Lýðræðið er merkilegt en það getur staðnað og þá þarf að hugsa um fjölbreytni á kjörseðlinum. Við eigum skilið betra lýðræði.

Að lokum legg ég til að lögfesta skuli hina nýju stjórnarskrá okkar hið fyrsta, leggja niður feðraveldið, brenna kerfið til grunna og byggja upp á nýtt frá sjónarmiði notenda og að sjálfsögðu að nefndarfundir Alþingis séu að jafnaði opnir. Góðar stundir.