151. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2021.

ákvæði um trúnað í nefndum.

[11:16]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í umræðum um fundarstjórn forseta hér í gær skildi ég virðulegan forseta þannig að hann hefði ætla að koma því til nefndanna, formanna nefndanna, að ítreka trúnað í nefndum. Var þá væntanlega meining forseta að þar með yrði það útkljáð. Ég tel það hafa mistekist algerlega í ljósi ummæla hv. þm. Ara Trausta Guðmundssonar hérna áðan, sömuleiðis Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur í gær og reyndar líka Kolbeins Óttarssonar Proppés. Enginn trúnaðarbrestur hefur átt sér stað upp á síðkastið í nefndum Alþingis og ásakanir um slíkt eru einungis lagðar fram til að grafa undan getu þingmanna til að lýsa fyrir almenningi svo miklu sem framgangi mála.

Virðulegi forseti. Í nefndarálitum og ræðum er alvanalegt að ræddir séu hlutir eins og framgangur mála í nefndum eða hvað komi fram á nefndarfundum eða hvaða sjónarmið séu viðruð og þess háttar. Ekkert nýtt hefur gerst með framgöngu hv. þingmanna Jóns Þórs Ólafssonar og Helgu Völu Helgadóttur, ekki nokkur skapaður hlutur. Það er árás á virðingu þingsins af hálfu stjórnarliða að koma hingað og saka stjórnarandstæðinga um að grafa undan trausti til Alþingis eða trúnaðar í nefndum. Það eru öfugmæli, virðulegi forseti. Það eru þingmenn stjórnarmeirihlutans sem eru að því. Þingmenn stjórnarminnihlutans eru einfaldlega að sinna skyldum sínum í eftirlitshlutverki sínu gagnvart framkvæmdarvaldinu, (Forseti hringir.) þeim sjálfsögðu skyldum sem þeim ber að sinna með eða án leyfis hv. þingmanna meiri hlutans. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)