151. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2021.

ákvæði um trúnað í nefndum.

[11:22]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég skil og er sammála virðulegum forseta um það að hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson og þeir sem hér töluðu í gær lýsi sínum eigin sjónarmiðum. Ég átta mig á því. Ég hef verið nógu lengi á Alþingi til að átta mig á því að þegar þingmenn koma hingað upp í pontu eru þeir að lýsa eigin sjónarmiðum. Vandinn sem ég á við að stríða núna gagnvart hlutverki virðulegs forseta í þessu öllu saman er bréf sem virðulegur forseti sendi til formanna nefndanna með þeim skilningi að nefndirnar ættu að finna út úr því hvernig þær ætluðu að hafa þetta eða skilja þingsköp. Það er mjög greinilegt, virðulegi forseti, að bréfið hefur valdið þeim misskilningi hjá þingmönnum stjórnarmeirihlutans að trúnaður hafi verið brotinn, eða þingsköp að nokkru leyti, í framgöngu þeirra hv. þingmanna sem um ræðir. Þann misskilning þarf að leiðrétta. Það er ekki nógu gott, virðulegi forseti, að hér í pontu séum við ósammála um það hvort við séum að brjóta trúnað eða ekki. Það þarf að vera á hreinu og það er vonandi hlutverk virðulegs forseta (Forseti hringir.) að reyna að hafa það á hreinu og það hefur mistekist. Ég geri því ráð fyrir því að þetta verði áfram rætt hér (Forseti hringir.) eða á öðrum vettvangi þar til komist verður til botns í þessu. (Forseti hringir.) En það gengur ekki að hér séu stjórnarandstöðuþingmenn vændir um trúnaðarbrot til að grafa undan sjálfsögðu eftirlitshlutverki þeirra. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)