151. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2021.

ákvæði um trúnað í nefndum.

[11:25]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Já, ég held að við þurfum bara að ræða þetta orðið á hverjum degi hér í þingsal miðað við mögulegan misskilning stjórnarliða á þingskapalögunum. Ég minni hv. þingmenn á að við erum fulltrúar almennings. Við gegnum ríku eftirlitshlutverki, okkur ber að spyrja spurninga og okkur ber líka að upplýsa þjóðina um það sem við verðum áskynja í störfum okkar, nema ef um það ríkir sérstakur trúnaður. Ég get tekið dæmi úr hv. velferðarnefnd. Þar eru bóluefnasamningar til umræðu. Um þá ríkir sérstakur trúnaður og okkur er ekki heimilt að upplýsa um það sem þar er í smáatriðum. En að láta eins og við sem hér stöndum megum ekki fjalla um það sem fjallað er um í nefndunum er auðvitað slík fásinna að maður veltir fyrir sér hvort þingmenn ríkisstjórnarflokkanna hafi ekki áttað sig á viðamiklu hlutverki sínu hér inni. Það er nokkuð dapurlegt að á lokamánuðum kjörtímabilsins (Forseti hringir.) sé staðan sú að það komi þeim algerlega á óvart (Forseti hringir.) að þau eigi að rækja hér ríkt eftirlitshlutverk með framkvæmdarvaldinu, (Forseti hringir.) þrátt fyrir að vera í ríkisstjórnarflokkunum.