151. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2021.

ákvæði um trúnað í nefndum.

[11:34]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Mínir nánustu eiga það til að saka mig um skort á tilfinningagreind. Nú getur vel verið að sá skortur geri það að verkum að ég hafi hreinlega bara misskilið nefndarstörf Alþingis frá upphafi, frá því að ég settist á þing 2016, að það hafi algerlega farið fram hjá mér að þeir sem boðnir eru á fundi nefndanna mæti skjálfandi á beinunum af ótta við að það sem þeir segi þar leki til almennings. [Hlátur í þingsal.] Ég er bara hálfmiður mín hérna vegna þess að ég hef í skorti mínum á tilfinningagreind talið þetta vera tækifæri fólks, hagsmunaaðila, almennings og bara hverra sem er í íslensku samfélagi til að mæta og fá áheyrn hjá þingmönnum sem gera síðan eitthvað við málið. Ég biðst afsökunar á sjálfri mér.