151. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2021.

barnalög.

11. mál
[12:54]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Páll Magnússon) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég vildi bara rétt koma hingað upp til að taka undir með þeim fulltrúum meiri hluta í hv. allsherjar- og menntamálanefnd sem hér hafa talað, að fyrir þeim áhyggjuefnum sem fulltrúar minni hlutans í nefndinni hafa lýst hér er vel séð í frumvarpinu og með breytingartillögum og greinargerð með frumvarpinu eins og það liggur fyrir núna. Það var aldrei hægt að leggja af stað í ferðalag með þetta mikilvæga og jákvæða mál þannig að fyrir öllu yrði séð, öllum öðrum breytingum sem þarf að gera á lögum og reglum í tengslum við þetta. Við í meiri hlutanum teljum að fyrir þessu sé mjög vel séð. Það gefst tími til að endurskoða önnur lög og aðrar reglur sem um þessi mál gilda og engin ástæða fyrir þeim ótta eða fyrirvörum sem fulltrúar minni hlutans hafa reifað hér.