151. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2021.

Neytendastofa o.fl.

344. mál
[13:12]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Vitið þið hvert er olnbogabarn íslenskra stjórnmála? Það eru neytendamálin. Alltaf eiga þau að lúta í lægra haldi fyrir sérhagsmunum eða trúarbrögðum um að það beri ætíð að fækka ríkisstofnunum eins og hér er gert. Neytendasamtökin virðast hafa miklar efasemdir um þetta mál. Og af hverju ekki að hlusta á þau? Af hverju förum við ekki í hina áttina? Af hverju erum við að veikja Neytendastofu í stað þess að styrkja hana? Við erum öll neytendur en hagsmunir okkar eru kannski of dreifðir til að ná í gegnum lobbíismann og hávaðann hér á þingi.

Herra forseti. Það segir kannski sína sögu að við höfum ekki sérstakan ráðherra neytendamála í þessari ríkisstjórn en við höfum ráðherra landbúnaðar, ráðherra sjávarútvegs og ráðherra iðnaðar.