151. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2021.

óréttmæti málshöfðunar Alþingis gegn ráðherrum og afsökunarbeiðni.

357. mál
[13:40]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M):

Hæstv. forseti. Ég flyt þetta mál enn á ný ásamt ágætum hópi hv. þingmanna. Þessi tillaga til þingsályktunar hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að rangt hafi verið að leggja fram tillögu til þingsályktunar um málshöfðun gegn ráðherrum, sbr. 706. mál á 138. löggjafarþingi, sem samþykkt var að hluta sem þingsályktun nr. 30/138 hinn 28. september 2010. Viðkomandi ráðherrar verðskuldi afsökunarbeiðni vegna þessa.“

Til að gera langa sögu stutta, herra forseti, snýst þetta um landsdómsmálið svokallaða og tilraunir Alþingis eða hluta þess til að koma nokkrum fyrrverandi hæstv. ráðherrum í fangelsi. Það er því ekki að ástæðulausu að ég legg málið fram enn á ný. Það varðar grundvallaratriði lýðræðisins á Íslandi.

Eins og rakið er í tillögunni er margt sem gefur tilefni til að Alþingi álykti með þessum hætti, viðurkenni að pólitísk réttarhöld eigi ekki rétt á sér og að þeir sem í hlut eiga verðskuldi afsökunarbeiðni, hvaðan sem hún svo kemur. En hæstv. forseti, ekki sá sem nú situr í forsetastóli heldur hæstv. forseti Alþingis, hefur farið létt með að biðjast afsökunar á einu og öðru og ég held að það sé tímabært núna meira en áratug eftir þessa atburði, einstaka atburði í íslenskri stjórnmálasögu, að hæstv. forseti biðjist afsökunar á þeim fyrir hönd sjálfs sín, ef ekki Alþingis.

Niðurstaða landsdóms sýnir að það var ekkert tilefni til ákæru í þessu máli. Öll málsmeðferðin þar og svo niðurstaðan sýnir að málatilbúnaðurinn sem leiddi til málsins átti ekki rétt á sér.

Við sjáum líka að ekki hefur verið gætt samræmis í því hvernig farið er með mál sem þessi. Auðvitað þekkjum við fjölmörg dæmi þess að teknar hafi verið pólitískar ákvarðanir eða að menn hafi sleppt því að taka ákvarðanir, vanrækt það, og það hafi leitt til einhvers konar skaða, efnahagslegs skaða eða annars tjóns. En aldrei fyrr en í þessu tilviki gerðu menn tilraunir til þess að refsa mönnum, koma þeim í fangelsi fyrir að hafa ekki fjallað um ákveðin mál eða ekki haft rétta skoðun á þeim, ekki komið með réttu lausnirnar.

Svo er það þriðja atriðið sem ég vil nefna í upptalningu minni á göllum þessa málatilbúnaðar alls. Það er hvernig staðið var að atkvæðagreiðslu um málið. Þar hefur annað af tvennu gerst. Annaðhvort hefur hreint ótrúleg tilviljun ráðið för og skilað þeirri niðurstöðu að aðeins einn þeirra fjögurra ráðherra sem leitast var við að ákæra var á endanum ákærður eða það sem virðist nú tölfræðilega miklu líklegra og í raun augljóst, herra forseti, að menn hafi einhverjir skipt með sér verkum með þeim hætti að aðeins einn ráðherra, Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, yrði ákærður þrátt fyrir að fjallað hafi verið sameiginlega um ráðherrana alla í því sem þar var lagt til grundvallar.

Af þessu leiðir fjórði punkturinn sem nefndur er í tillögunni. Það er beinlínis ógn við lýðræðislegt stjórnarfar á Íslandi ef það fær að liggja óátalið af hálfu Alþingis að gerð sé tilraun til að koma starfandi eða fyrrverandi stjórnmálamanni í fangelsi vegna pólitískra ákvarðana eða ákvarðanaleysis. Þrátt fyrir að enginn ásetningur hafi verið til staðar um að valda tjóni þá ætli Alþingi að láta það liggja að efnt sé til pólitískra réttarhalda vegna ákvarðana eða ákvarðanaleysis stjórnmálamanna.

Ég minni á að eina atriðið sem stóð eftir, eftir alla meðferðina hjá landsdómi, var að tiltekið mál hefði ekki verið bókað sérstaklega á ríkisstjórnarfundi. Ég kem nánar að því á eftir, herra forseti.

Hver væru áhrifin? Hverjar yrðu afleiðingarnar af því ef við teldum það ásættanlegt að refsa mönnum, jafnvel reyna að fá þá dæmda til fangelsisvistar, fyrir að hafa rangar skoðanir eða framkvæma ekki það sem æskilegt, eftir á að hyggja, hefði verið að gera við tilteknar aðstæður? Það eru margar stjórnmálahreyfingar sem berjast fyrir stórskaðlegum málstað. Í þeim tilvikum væri auðvitað best að menn gerðu ekkert, eða sem minnst, en fylgi þessar hreyfingar sínum málstað þá er hann vís til þess að valda miklum skaða. En eigum við að fara að gera stjórnmálastefnur, viðhorf, jafnvel ákvarðanaleysi í stjórnmálum, refsivert? Nei. Ef við ætluðum að gera það hvernig ættum við þá að bregðast við t.d. málflutningi kommúnista eða sumra harðlínumanna hér á þingi? Á að gera þann málflutning ólöglegan og refsiverðan, og komist þetta fólk til valda, fái til þess lýðræðislegt umboð, að refsa mönnum þá í framhaldinu þegar slík ríkisstjórn væri fallin? Ég teldi það stórhættulegt, herra forseti, og skaðlegt lýðræðinu, í raun ógn við lýðræðið eins og nefnt er í þingsályktunartillögunni.

Ég var ekki stuðningsmaður þeirrar ríkisstjórnar eða þeirra ráðherra sem leitast var við að koma í fangelsi á árinu 2010. Þvert á móti, herra forseti. Ég var eindreginn andstæðingur þeirrar ríkisstjórnar, stefnu hennar og aðgerðaleysis. Ég taldi þá, eins og ég tel nú, að réttu viðbrögðin væru þau að fella slíka ríkisstjórn í kosningum, ekki reyna að koma ráðherrunum í fangelsi. En því miður hefur sú þróun sem liggur kannski að einhverju leyti, jafnvel að miklu leyti, til grundvallar öllum þessum málatilbúnaði verið að ágerast á undanförnum árum. Þess vegna tel ég þetta mál ekki síður brýnt nú en það var fyrir tíu árum. Sú tilhneiging að flokka fólk í hópa og dæma það sem það gerir eða gerir ekki jafnvel, eða segir eða segir ekki, út frá því hver á í hlut hefur mjög verið að ágerast og á kostnað prinsippa sem eiga mjög undir högg að sækja. Þetta er prinsippmál, herra forseti. Það snýst um pólitíska andstæðinga mína, fólk sem ég taldi mikilvægt að koma frá völdum á sínum tíma, en gat aldrei samþykkt að yrði sótt til saka fyrir pólitíska stefnu sína, aðgerðir eða aðgerðaleysi. Það er nefnilega hægt að gagnrýna og ræða málin og leiða til lykta í kosningum án þess að reyna að setja stjórnmálamenn í fangelsi.

Þrátt fyrir þá niðurstöðu sem ég lýsti áðan, þar sem tókst á einhvern mjög undarlegan hátt að tryggja það að einn af þessum fjórum ráðherrum yrði ákærður, var tveimur ákæruliðum af sex strax vísað frá af hálfu landsdóms. Þeir stóðust ekki skoðun. Þeir voru ekki einu sinni til þess bærir að fá umfjöllun. Ráðherrann var sýknaður af þremur ákæruliðum. Einn stóð eftir. Og hvað var það, herra forseti? Það var að þáverandi forsætisráðherra hefði ekki bókað sérstaklega á ríkisstjórnarfundi umræðu um fjármálakrísuna sem þá var í öllum fjölmiðlum á hverjum degi, eins og ríkisstjórnin hefði ekki haft hugmynd um hvað væri að gerast í heiminum fyrst forsætisráðherra hafði ekki bókað það. Svoleiðis að niðurstaðan sýndi að þessi málatilbúnaður allur átti ekki rétt á sér enda taldi dómurinn brotið, ef svo má segja, ekki veigameira en svo að ábyrgðin var sú að engin refsing var gerð við því og ákveðið að ríkið skyldi greiða allan málskostnað, sem segir sína sögu.

Nokkur orð um niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu í þessu máli: Hún hefur ekkert með það að gera að óeðlilegt er og óásættanlegt að efna til pólitískra réttarhalda á Íslandi vegna þess að niðurstaða Mannréttindadómstólsins snerist að málsmeðferðinni fyrir landsdómi, hvort hún hefði verið samkvæmt lögum eða ekki. Þetta snýst ekki um það. Þetta snýst um málsmeðferðina hér á Alþingi og að Alþingi skuli hafa ákveðið að efna til pólitískra réttarhalda.

Svo má nefna umræðu um að þetta hafi allt á einhvern óskiljanlegan hátt verið afleiðing af gömlum úreltum lögum um landsdóm þannig að þingið hafi í raun neyðst til að gera þetta. Þrátt fyrir alla tilburðina sem því fylgdu hafi þetta verið óhjákvæmileg afleiðing af lögum um landsdóm. Þetta er alrangt, herra forseti, og undarlegt að heyra enn tíu árum seinna slíkar fullyrðingar, jafnvel að því marki að nú er umræða um breytingar á stjórnarskrá sett í samhengi við þetta, að breytingar á landsdómi séu á einhvern hátt viðbrögð við þessu. Það er það ekki.

Geir H. Haarde var ekki ákærður fyrir brot á lögum um landsdóm. Hann var ákærður fyrir brot á lögum um ráðherraábyrgð og almennum hegningarlögum. Ef landsdómur hefði ekki verið til staðar hefði málið einfaldlega farið fyrir almenna dómstóla. Svo hefur meira að segja verið nefnt að Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, hafi talað um þetta lengi og vandann við landsdóm. En ef skoðað er hvað fólst í athugasemdum Jóhönnu Sigurðardóttur, til að mynda með tillögum hennar hér í þingi á árinu 2001, þá snerust þær um að það væri of erfitt að ákæra ráðherra. Landsdómur og þetta fyrirkomulag væri fyrirstaða. Þá þyrfti að auðvelda það að ráðist yrði í pólitísk réttarhöld og tillögurnar voru meira að segja svo brjálæðislegar að því var velt upp að minni hluti þingmanna gæti ákveðið að ákæra ráðherra og þingið myndi auk þess skipa sína eigin dómara. Segja má, herra forseti, að Jóhanna Sigurðardóttir hafi kannski verið á undan sínum tíma þarna af því að þetta er sú þróun sem við sjáum í stjórnmálunum allt of víða. Dómharkan eykst og flokkadrættirnir og það er allt leyfilegt gagnvart sumum hópum en ekki má einu sinni gagnrýna aðra. Ég tel því gríðarlega mikilvægt að þetta mál verði klárað, herra forseti. En af hverju hefur það ekki verið klárað? Af hverju hef ég mælt fyrir því ítrekað svo ekki sé minnst á alla söguna þar á undan? Vill meiri hlutinn á Alþingi ekki klára þetta? Tengist það því að tveir af forystumönnum ríkisstjórnarflokkanna, leiðtogum ríkisstjórnarflokkanna, reyndu að koma fyrrverandi formanni Sjálfstæðisflokksins í fangelsi? Vilja þeir þess vegna ekki ræða þetta mál?

Herra forseti. Þetta er prinsippmál sem þarf að fá afgreiðslu á þinginu. Ég vona að það fái skjótan framgang á þeim tiltölulega stutta tíma sem eftir er af þingstörfum. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málið fari til hv. allsherjar- og menntamálanefndar.