151. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna stuðnings til smærri innlendra áfengisframleiðenda og heimildar til sölu áfengis á framleiðslustað.

495. mál
[14:56]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég er ánægður með að hafa sett mig á mælendaskrá því að þá get ég rakið fleiri rangfærslur sem komu fram hjá hv. þingmanni. Ég hef mestar áhyggjur af misskilningnum. Að neyslan hafi aukist eitthvað — hún hefur tvöfaldast, það voru 3,7 lítrar af hreinum vínanda á mann 1989; 7 lítrar árið 2012, og það var löngu áður en 2 milljónir ferðamanna fóru að koma til landsins; 8,4 lítrar í dag. Ég hugsa að ferðamennirnir eigi lungann af 1,4 lítrum sem hafa bæst við síðan 2012. Það breytir því ekki að neysla landsmanna hefur aukist alveg rosalega.

Hv. þingmaður segir að við búum við ströngustu áfengislöggjöf í heimi. Það er ekki alveg rétt. Við erum á pari við Noreg og við erum á pari við Svíþjóð og Finnland. Svíar, Norðmenn og Finnar eru ögn léttúðugri, þeir eru með léttasta áfengið, bjórinn, í matvöruverslunum. En að öðru leyti erum við með ríkiseinkasölu á áfengi sem er öfundarefni í augum margra Evrópuþjóða og kemur m.a. fram í skýrslum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni.

Hvað eiga þessi lönd sameiginlegt sem eru svona ofboðslega frjálsleg? Jú, fólk lifir þar að jafnaði tveimur til fimm árum skemur en á Íslandi. Nú verð ég að viðurkenna, herra forseti, að mér þykir svo vænt um íslenska þjóð að ég vil að hún sé langlíf. Hv. þingmaður talaði mikið um þá sem misnota áfengi, og mér fannst hann eiginlega sneiða að þeim, og hvað á að gera við þá, herra forseti? Eigum við að loka þá inni svo að þeir komist ekki í áfengi og geti ekki skemmt fyrir okkur, þessum kúltiveruðu hófdrykkjumönnum sem megum ekki vamm okkar vita? Ég nefndi skorpulifur og hv. þingmaður neitaði því að skorpulifrartilfellum hefði fjölgað hérna. Ég ráðlegg hv. þingmanni að fara inn á síður landlæknisembættisins eða lyfta símanum og tala við landlækni og spyrja hann. Það hefur verið sýnt fram á að skorpulifur var ekki til á Íslandi fyrir nokkrum áratugum en er núna farin að láta á sér kræla. Hvers vegna? Út af dagdrykkju, herra forseti.