151. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna stuðnings til smærri innlendra áfengisframleiðenda og heimildar til sölu áfengis á framleiðslustað.

495. mál
[15:28]
Horfa

Flm. (Þórarinn Ingi Pétursson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Bjór er í sjálfu sér ekkert annað en fljótandi brauð. Talandi um ofneyslu og annað vil ég ítreka það sem hefur komið fram, hvort sem það var hjá hv. þm. Brynjari Níelssyni eða þeim sem hér stendur, að þegar kemur að lýðheilsusjónarmiðum er fræðsla alltaf besta vörnin, að uppfræða fólk. Síðan verðum við að treysta fólki til að komast yfir þessa hluti, ná utan um þá og reyna að stjórna lífi sínu á skynsamlegan hátt. En vissulega geta alltaf einhverjir fallið fram af brúninni og þess háttar. Fyrir það fyrsta verðum við að horfa til þess í þessu samhengi að fræða fólk um hvernig það getur lifað heilsusamlegu lífi. Við fjöllum hér um frumvarp sem snýr að litlu brugghúsunum en ekki um hugleiðingar hv. þm. Brynjars Níelssonar. Í því samhengi erum við að tala um að leyfa mönnum að selja vöru sína á framleiðslustað, hafa smásölu á framleiðslustað. Í frumvarpinu er ekki verið að tala um að fara alla leið og opna bara allar gáttir. Þannig að ég vonast til þess og langar að spyrja hv. þingmann hvort við getum ekki verið sammála um að ef við stundum bara nógu mikla fræðslu geti það hjálpað til við lýðheilsusjónarmiðin.