151. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2021.

gerð skoðanakönnunar um afstöðu til dánaraðstoðar meðal heilbrigðisstarfsfólks.

529. mál
[17:04]
Horfa

Flm. (Bryndís Haraldsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um gerð skoðanakönnunar um afstöðu til dánaraðstoðar meðal heilbrigðisstarfsfólks. Meðflutningsmenn mínir á þingsályktunartillögunni eru hv. þingmenn Hanna Katrín Friðriksson, Jón Steindór Valdimarsson, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Björn Leví Gunnarsson, Guðjón S. Brjánsson og Páll Magnússon. Ég þykist þess fullviss, virðulegur forseti, að hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir væri jafnframt flutningsmaður með okkur ef hún hefði setið á þingi þegar þetta var lagt fram. Hún var með okkur á fyrri málum þessu tengdum.

Þingsályktunin hljómar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að láta gera skoðanakönnun meðal heilbrigðisstarfsfólks um afstöðu þess til dánaraðstoðar. Markmiðið með gerð skoðanakönnunarinnar verði að fá sem gleggsta mynd af afstöðu heilbrigðisstarfsfólks til álitaefnisins, sem hefur fengið meiri opinbera umræðu en áður eftir að skýrsla heilbrigðisráðherra um dánaraðstoð kom út, og kanna á hlutlausan og vandaðan hátt hvort og hvernig afstaða heilbrigðisstarfsfólks hefur breyst svo unnt sé að vinna málið áfram. Ráðherra kynni Alþingi niðurstöður skoðanakönnunarinnar á haustþingi 2021.“

Ég held að ástæða sé til að geta þess að frá því að ég kom á þing hef ég flutt mál tengd dánaraðstoð. Ég var fyrst með þingsályktunartillögu sem gekk út á að hæstv. ráðherra tæki saman upplýsingar um dánaraðstoð í nágrannalöndum okkar, bæði þar sem settur hefur verið í kringum hana ákveðinn lagarammi og eins þróunina í þeim nágrannalöndum okkar þar sem slík leið hefur ekki verið farin. Jafnframt að könnuð yrði afstaða heilbrigðisstarfsfólks til dánaraðstoðar. Slík þingsályktunartillaga var lögð fram á 146. þingi, 148. þingi og á 149. þingi.

Virðulegur forseti. Sú sem hér stendur gafst upp á því á sínum tíma að vera í þrígang búin að leggja málið fram og fá það ekki afgreitt frá þinginu. Því var brugðið á það ráð seint á 149. þingi að koma með skýrslubeiðni um sama mál. Hún var fyrst samþykkt 13. júní 2019 en ekki náðist að afgreiða hana. Hæstv. ráðherra náði sem sagt ekki að skila skýrslu á yfirstandandi þingi. Af þessum þingtæknilegu ástæðum lögðum við slíka beiðni aftur fram á 150. þingi. Hún var samþykkt 16. desember og skýrslan kom 27. ágúst árið 2020. Í skýrslunni, sem ég hygg að sé fyrsta þingskjalið þar sem með einhverjum hætti er fjallað um dánaraðstoð, er mjög góð samantekt um dánaraðstoð og þróun í nágrannalöndum okkar, sérstaklega þeim löndum sem hafa leyft dánaraðstoð og hafa gert það með aðeins mismunandi útfærslum. Það sem er reyndar líka mjög áhugavert í þeirri skýrslu er skilgreiningin á dánaraðstoð. Í skýrslunni segir að dánaraðstoð sé yfirhugtak ýmissa athafna eða athafnaleysis sem hægt sé að beina að sjúklingi í þeim tilgangi að binda enda á líf hans. Dánaraðstoð geti verið veitt með margvíslegum hætti sem skipta megi í fjögur megin-undirhugtök. Þau eru eftirfarandi, raðað eftir því hversu mikið inngrip þau teljast vera í líf sjúklings, það vægasta fyrst: Líknarmeðferð, óbein dánaraðstoð, læknisaðstoð við sjálfsvíg og loks bein dánaraðstoð.

Virðulegur forseti. Ég nefni þetta hér því að mörgum var svolítið brugðið við að líknarmeðferð væri felld undir dánaraðstoð. Eins og öllum ætti að vera kunnugt er líknarmeðferð veitt hér á landi. Sú meðferð hefur sem betur fer þróast mikið á síðustu árum og ég vil meina að íslenskir læknar séu almennt mjög færir í að veita þá meðferð. Aðrir hlutar dánaraðstoðar hafa ekki verið heimilaðir samkvæmt íslenskum lögum. Það sem við förum fram á er að fá fram afstöðu heilbrigðisstarfsfólks til dánaraðstoðar og mismunandi þátta hennar. Í því samhengi er ágætt að benda á nýlega skoðanakönnun sem bresku læknasamtökin létu framkvæma. Hún er frá því í febrúar 2020 og þar kemur fram að meiri hluti breskra lækna vilji að bresku læknasamtökin láti af andstöðu sinni við dánaraðstoð. Niðurstöður þeirrar könnunar voru mismunandi eftir eðli spurninganna og eftir því hversu mikilli þátttöku heilbrigðisstarfsfólks væri gert ráð fyrir í ferlinu. Athygli vekur að læknanemar voru jákvæðari í afstöðu sinni til dánaraðstoðar en læknar sem höfðu starfað lengi. Það kann að vera ákveðin vísbending um kynslóðabil í afstöðu til þessa álitaefnis en ágætlega er farið yfir það í greinargerðinni hvernig afstaðan skiptist.

Við hv. þingmenn sem flytjum þessa þingsályktunartillögu höfum mörg, ég hygg öll og vonandi fleiri, fylgst með þeirri umræðu sem verið hefur hér á landi. Umræðan hefur verið, að ég tel, meiri og kannski dýpri og yfirvegaðri en oft áður. Það er kannski ekki síst hægt að þakka samtökunum Lífsvirðingu, sem er félag um dánaraðstoð. Þau vilja að dánaraðstoð verði leyfð í samfélaginu og hafa verið mjög dugleg að miðla fræðsluefni um dánaraðstoð, m.a. á samfélagsmiðlum, segja reynslusögur almennings og hafa boðið upp á fræðslu og málefnafundi. Ég vil nota tækifærið og þakka samtökunum kærlega fyrir þá mikilvægu vinnu því að dánaraðstoð er í mínum huga ofboðslega viðkvæmt siðferðilegt álitaefni. Þess vegna er svo mikilvægt að þegar við ræðum um dánaraðstoð gerum við það af virðingu og yfirvegun.

Í greinargerð, bæði með þingsályktunartillögu sem ég lagði fram svo og skýrslubeiðni á sínum tíma, vitnaði ég í tölur sem ég hafði komist yfir um afstöðu til dánaraðstoðar. Í könnun sem birtist í Læknablaðinu árið 1997 þar sem ein af spurningunum var um dánaraðstoð var það orð ekki notað yfir þetta heldur var orðið líknardráp notað. Ég vona að ef við höfum náð einhverju fram í umfjöllun hér á þingi sé það einmitt að breyta þeirri orðanotkun og nota frekar orðið dánaraðstoð. Í skoðanakönnuninni sem var birt 1997 töldu aðeins 5% lækna og 9% hjúkrunarfræðinga líknardráp, sem við myndum kalla dánaraðstoð, réttlætanlegt undir einhverjum kringumstæðum en einungis 2% svarenda gátu hugsað sér að verða við slíkri ósk.

Ég komst jafnframt yfir sambærilega könnun sem gerð var árið 2010, 13 árum síðar. Þá hafði niðurstaðan aðeins breyst. Þá þótti 18% lækna það geta verið réttlætanlegt í einhverjum tilfellum og 20% hjúkrunarfræðinga en aðeins 3% vildu verða við slíkri ósk. Niðurstöðurnar sýna auðvitað mjög mikla breytingu á þessu árabili. Við getum horft til annarra Norðurlanda og séð að mikið virðist vera að breytast líka í afstöðu þar. Til að mynda voru 30% norskra lækna hlynnt dánaraðstoð árið 2019 en aðeins 15% árið 2009. Í Finnlandi voru 46% lækna hlynnt dánaraðstoð en stuðningur við slíka aðstoð var 29% í þeirra hópi árið 2002. Árið 2013 voru 33% sænskra lækna hlynnt dánaraðstoð. Í Noregi voru 40% hjúkrunarfræðinga hlynnt dánaraðstoð árið 2019 en 25% tíu árum áður.

Ég kem víðar við í greinargerðinni þar sem við höfum aflað upplýsinga um stöðu þessara mála í nágrannalöndum okkar. Ágætt er að geta þess fyrir þá sem ekki þekkja að dánaraðstoð er ekki leyfð á Norðurlöndunum. Benelúxlöndin svokölluðu voru fyrst til að leyfa hana, þ.e. Holland, Belgía og Lúxemborg, Sviss hefur einnig gert það og svo ákveðin ríki í Bandaríkjunum og fylki í Kanada jafnframt. Það kann að vera að ég sé að gleyma einhverju því að þetta hefur breyst svolítið á allrasíðustu misserum. Í skýrslubeiðni til hæstv. heilbrigðisráðherra, en við fengum skýrslu 27. ágúst síðastliðinn, var farið fram á að slík könnun yrði gerð. Ráðuneytið gerði það ekki en svaraði því til í skýrslunni sjálfri að það legðist ekki gegn slíkri könnun.

Virðulegur forseti. Í ljósi þess að stundum hefur verið kastað ákveðinni rýrð á þær skoðanakannanir sem þó hafa birst um þetta viðkvæma málefni finnst mér og okkur hv. þingmönnum sem flytjum málið eðlilegt að ráðuneytið sjálft beiti sér fyrir því, í samstarfi við Læknafélagið, að gera slíka rannsókn, þ.e. skoðanakönnun á afstöðu heilbrigðisstarfsmanna. Ég nefndi Læknafélagið en að sjálfsögðu væri ástæða til að tala líka við Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga og jafnvel félög fleiri heilbrigðisstarfsmanna. Ég held að í þessu ljósi sé líka mikilvægt að þær kannanir sem til eru um þetta mál — alla vega hefur Maskína framkvæmt eitthvað af þeim. Hægt var að lesa milli línanna í skýrslu heilbrigðisráðuneytisins að með einhverjum hætti væri hægt að draga þær í efa. Alla vega væri mikilvægt að óháðar kannanir væru gerðar. Það var sem sagt aðeins látið í það skína að kannanir Maskínu væru háðar þeim sem hefðu óskað eftir þeim, sem ég tel reyndar ekki vera. Ef uppi eru einhverjar áhyggjur um það færi vel á því að önnur könnun væri gerð af einhverjum aðilum sem ráðuneytið telur óháða í þeim efnum. Árið 2015 lét Siðmennt Maskínu gera fyrir sig slíka könnun sem leiddi í ljós að þrír af hverjum fjórum væru hlynntir því að einstaklingur gæti fengið aðstoð við að binda enda á líf sitt ef hann væri haldinn ólæknandi sjúkdómi. Árið 2019 var sambærileg könnun gerð og þá var afstaða svarenda gagnvart álitaefninu mjög jákvæð. Þá sögðust 78% styðja dánaraðstoð.

Virðulegur forseti. Ég tel einsýnt að almenningur sé hlynntur dánaraðstoð en ég hef líka fullan skilning á því að við erum að ræða um viðkvæmt málefni og kannski leggja ekki allir sama skilning í orðið dánaraðstoð. Ég tel þar af leiðandi mjög mikilvægt að við köllum eftir afstöðu heilbrigðisstarfsfólks til dánaraðstoðar og vænti þess að slík niðurstaða geti hjálpað okkur við að leiða málið áfram.

Ég hef sjálf sagt það í þessum ræðustól að ég er hlynnt dánaraðstoð og hef þá vísað til hollensku leiðarinnar, eins og hún hefur stundum verið kölluð, þar sem er skýr lagarammi í kringum slíka aðstoð, þar sem tveir læknar þurfa að skrifa upp á slíka beiðni fyrir einstaklinga sem eru dauðvona, með ólæknandi sjúkdóma, og læknar telja sig ekki geta linað þjáningar viðkomandi. Það þarf að vera algerlega ljóst að óskin sé einstaklingsins sjálfs og að læknir aðstoði við framkvæmdina. Í ljósi þess að sú leið, og í rauninni allt sem kemur að þessu, er auðvitað algerlega háð læknum eða öðru heilbrigðisstarfsfólki þá er mikilvægt að við þekkjum afstöðu heilbrigðisstarfsfólks sjálfs til dánaraðstoðar. Þess vegna legg ég fram þessa þingsályktunartillögu með þá einlægu von í brjósti að hægt verði að afgreiða málið nokkuð hratt og örugglega út úr nefnd. Þó að málið sé vissulega flókið og kalli á ótal spurningar er það sem verið er að biðja um hér einfaldlega það að láta hæstv. heilbrigðisráðherra hlutast til um að gera skoðanakönnun meðal heilbrigðisstarfsmanna, ekkert annað. Það eitt og sér ætti að vera tiltölulega auðvelt að afgreiða frá okkur. Margir töldu reyndar að við hefðum óskað eftir því og hefðum falið hæstv. heilbrigðisráðherra að gera það með samþykkt skýrslubeiðninnar, bæði á 149. og á 150. þingi. En í ljósi þess að það gerðist ekki leggjum við málið fram að nýju með þessari skýru beiðni til hæstv. heilbrigðisráðherra.