151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

strandsiglingar.

[13:16]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Að einhverju leyti er munur á upplýsingunum sem ég fæ frá fólki sem ég hef talað við í sjávarbyggðunum en hugsanlega er þetta þróun sem enn er að eiga sér stað í þessum töluðu orðum. Svo má vera. Ég merki þó örlitla mótsögn í máli hæstv. ráðherra sem er það að annars vegar sé verið með strandsiglingar í öllu sem er mögulegt að vera með strandsiglingar í en hins vegar eigi að skoða hvort hægt sé að auka við þær að einhverju leyti og sér í lagi með hliðsjón af nýrri tækni.

Að því sögðu fagna ég því, og mér þykir gott að heyra það, að hæstv. ráðherra sé að skoða þetta betur. Þótt strandsiglingar séu kannski ekki lausnin við öllum vandamálum þá er mikilvægt, þegar fram líða stundir, að við nýtum þau tækifæri sem við fáum til að efla þær enn betur. Ekki bara út af vegakerfinu, sem þó er oft minnst á, heldur líka vegna þess — ég verð að viðurkenna að þar hef ég bara aðrar upplýsingar en hæstv. ráðherra, en minn skilningur er sá að hægt sé að nota þær til að efla byggðirnar sjálfar, bæði hvað varðar aðflutt aðföng og sömuleiðis til flutninga frá þeim. (Forseti hringir.) Mögulega er það einhver misskilningur af minni hálfu en í öllu falli þakka ég hæstv. ráðherra fyrir svarið.