151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

skimun á landamærum.

[13:23]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra svörin, en ég skil bara ekki hvers vegna í ósköpunum við erum að gera þetta á næstu dögum. Ég tel áhættuna allt of mikla. Ég tel að við eigum að gera þetta núna strax, sjá til þess að við verðum veirufrí. Við getum það. Nýsjálendingar hafa sannað að það er hægt. Þetta á ekki að vera vandamál hjá okkur. Við erum mun minna samfélag.

Það er annað sem mig langar að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra út í. Eftir að AstraZeneca-málið kom upp og búið er að setja það lyf í stopp, hafa haft samband við mig einstaklingar sem eru með undirliggjandi sjúkdóma og jafnvel marga. Þeir hafa áhyggjur af því að þeir megi ekki velja, þeir séu undir 65 ára og verði að taka það efni sem verður á boðstólum þegar þar að kemur. Það er kannski allt í lagi þessa vikuna, en ætlar ráðherra að sjá til þess að þetta fólk þurfi ekki að hafa áhyggjur, þetta eru örfáir einstaklingar, og leyfa þeim að velja efnið sem þau vilja, sérstaklega ef þau neita því að fá AstraZeneca, að þau fái að gera það og velja eitthvað annað?