151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

bólusetningarvottorð á landamærum.

[13:26]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Nýlega var upplýst að stjórnvöld hefðu óskað álits ráðherraráðs Evrópusambandsins um að við opnuðum ytri landamæri Íslands og færðum þau þá í raun héðan og til meginlands Evrópu. Samkvæmt fréttum tók ráðherraráðið neikvætt í þá málaleitan íslenskra stjórnvalda. Í hádeginu í dag bárust fréttir um að stjórnvöld hér ætli að ganga frá reglugerðum í þessari viku sem leyfa Bandaríkjamönnum og Bretum sem hafa verið bólusettir að koma til landsins, hafi þeir framvísað vottorði frá heimalandinu um bólusetningu. Af þessu tilefni, þessum nýju fréttum, óska ég eftir því að hæstv. dómsmálaráðherra skýri þetta örlítið út fyrir okkur, svona í samhengi við fyrri fréttir um afstöðu ráðherraráðs Evrópusambandsins, hvort þarna sé raunverulega verið að færa ytri landamæri Schengen út fyrir Ísland og hvort þeir ferðamenn sem hingað koma og er leyft að stíga hér á land þurfi þá að gangast undir sérstakt landamæraeftirlit ef þeir hyggjast halda áfram ferð sinni til Evrópu, sem ég held að hljóti að vera.

Einnig vil ég spyrja hæstv. dómsmálaráðherra hvort þetta hafi verið gert í samráði og með samþykki ráðherraráðsins. Fréttir bera með sér að ráðið hafi verið andsnúið þessu í upphafi, mér leikur forvitni á að vita þetta.

Ég vil einnig spyrja hvort komi til greina í þessu sambandi, fyrst verið er að veita heimild fyrir ferðamenn frá Bretlandi og Bandaríkjunum, að víkka það út og taka einnig við ferðamönnum sem framvísa sambærilegum vottorðum frá öðrum löndum eins og Kanada eða Kína. Mér leikur forvitni á að vita það.