151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

atvinnuleysi og staða atvinnuleitenda.

[13:47]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Í heimsfaraldri og djúpri atvinnukreppu er almennt atvinnuleysi í febrúar 11,4% hér á landi, eða 21.352 einstaklingar. Í febrúar höfðu 4.719 manns verið atvinnulausir í meira en 12 mánuði. Meðalatvinnuleysi frá árinu 1980 er 3,1%. Seðlabankinn spáir miklu atvinnuleysi áfram, eða um 7,3% í ár, og litlu minna á því næsta, eða 6,7%, og 6,3% árið 2022. Þetta mikla atvinnuleysi mun hafa bæði efnahagslegar og félagslegar afleiðingar ef ekkert verður að gert. Þess vegna er svo mikilvægt að staða þeirra sem eru án atvinnu verði greind og stjórnvöld grípi til almennilegra ráða til að vinna gegn fátækt. Ef stjórnvöld hreyfa sig ekki hraðar en hingað til er það pólitísk ákvörðun að láta þá sem missa vinnuna í heimsfaraldri bera þyngstu byrðarnar.

Varða, rannsóknastofnun vinnumarkaðarins, gerði könnun meðal félagsmanna í aðildarfélögum BSRB og ASÍ í árslok 2020. Þar kom fram að meðal atvinnulausra félagsmanna átti rúmlega helmingurinn erfitt með að ná endum saman. Atvinnulausir eru því líka mun líklegri til að þurfa að leita til sveitarfélaga eða vina og ættingja eftir fjárhagsaðstoð, þiggja aðstoð hjálparsamtaka eða fá mataraðstoð frá hjálparstofnunum. Um 35% atvinnulausra búa í leiguhúsnæði samanborið við 15% launamanna. Atvinnuleysi er hlutfallslega meira meðal erlendra ríkisborgara en íslenskra. Þar að auki virðist hópurinn almennt í verri stöðu og innflytjendur hafa þurft að þiggja matar- og/eða fjárhagsaðstoð í meira mæli en aðrir.

Í könnun Vörðu var einnig spurt um andlega og líkamlega heilsu. Niðurstöðurnar sýna að andleg og líkamleg heilsa atvinnulausra er verri en þeirra sem eru í vinnu og þeir eru líklegri til að hafa neitað sér um að sækja heilbrigðisþjónustu. Andleg heilsa atvinnulausra mælist einnig mun verri hjá konum en körlum. Staða atvinnulausra er alvarleg og krefst mun meiri athygli stjórnvalda og kröftugra, sértækra aðgerða. Skrefið sem hæstv. félags- og barnamálaráðherra kynnti síðasta föstudag er jákvætt. Við í Samfylkingunni höfðum kallað eftir slíkri aðgerð, störfum með styrki, líkt og gert var eftir hrun í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, en það þarf að koma fleira til og til lengri tíma. Aðstoð við þá sem glíma við langtímaatvinnuleysi þarf að vera af ýmsum toga og það er algerlega nauðsynlegt að gera fólki kleift að sækja sér heilbrigðisþjónustu, ekki síst geðheilbrigðisþjónustu.

Herra forseti. Hætta er á að skuldavandi taki við af atvinnukreppu ef tekjufalli heimila þeirra þúsunda sem misst hafa vinnuna verður ekki mætt. Lengja þarf atvinnuleysistímabilið en það þarf einnig sérstakan stuðning vegna tekjufalls heimila og þau þurfa viðspyrnustyrk líkt og fyrirtækin. Verslunarmannafélag Reykjavíkur hefur lagt fram hugmynd að sértækum stuðningi sem ætlað er að tryggja afkomuöryggi heimila sem orðið hafa fyrir atvinnumissi og tekjufalli í heimsfaraldri og hefur ASÍ gert þá hugmynd að sinni.

Tíminn er knappur til að bregðast við og mörg heimili eru þegar komin út á ystu nöf. Lausnin felur í sér aðkomu bæði ríkisins og bankanna. Veitt verði stuðningslán til heimila með ríkisábyrgð og afslætti af tekjuskatti til að mæta afborgunum. Bankar veiti framfærslulán í formi mánaðarlegrar lánalínu með ríkisábyrgð. Þannig geta heimilin áfram staðið við skuldbindingar sínar og framfleytt sér og sínum á meðan tekjubrestur varir.

Í óundirbúnum fyrirspurnatíma þann 14. desember síðastliðinn svaraði hæstv. forsætisráðherra fyrirspurn frá mér á þá leið að stuðningur til að vinna gegn skuldavanda væri til skoðunar hjá hæstv. félags- og barnamálaráðherra. Er von á viðbrögðum frá hæstv. ráðherra í þessu máli? Þúsundir hafa verið lengur en sex mánuði án atvinnu og vandamálin hrannast upp. Fólk þarf að borga af lánum, borga leigu, borga tryggingar og klæða og fæða börn og aðra heimilismenn. Neikvæð áhrif á félagslegan og efnahagslegan jöfnuð vegna mikils atvinnuleysis er vandamál sem glíma þarf við á næstu árum. Áhrifin eru ólík á mismunandi þjóðfélagshópa. Staða ungs fólks, íbúa af erlendum uppruna og kvenna er sérstaklega slæm. Ég spyr því hæstv. ráðherra hvaða skref hann telji nauðsynlegt að taka til að mæta sértækum vanda atvinnulausra í atvinnukreppu. Til hvaða bráðaaðgerða er árangursríkast að grípa? Hvaða aðgerðir telur hæstv. ráðherra að dugi best til að vinna gegn neikvæðum áhrifum langtímaatvinnuleysis?