151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

atvinnuleysi og staða atvinnuleitenda.

[14:02]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Virðulegi forseti. Ef Covid hefur kennt okkur eitthvað er það að við sem þjóð getum ekki haft öll eggin í sömu körfunni hvað varðar atvinnuvegi þjóðarinnar. En ímyndum okkur að til staðar væri lausn sem hefði alla burði til að verða fjórða stoð íslensks atvinnulífs og svo heppilega vildi til að hún rímaði fullkomlega við glænýja stefnu hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fyrir Ísland. Með einni einfaldri aðgerð gætum við skapa fjöldann allan af störfum, fengið marga milljarða inn í landið í einu vetfangi, milljarða sem myndu streyma um hagkerfið í dágóðan tíma, áður en aðeins brot færi aftur úr landi, og skilja eftir sig gríðarháar upphæðir í þjóðfélaginu. Ímyndum okkur það.

Stefnan sem ég vísa í er að sjálfsögðu stefna hæstv. menntamálaráðherra um kvikmyndagerð á Íslandi. Með einu litlu lagafrumvarpi sem kvæði á um að endurgreiðsluprósentan til kvikmyndaframleiðslu yrði hækkuð í 35% úr 25% væri þetta hægt. Það er hægt að skapa ótal störf í ferðaþjónustunni, listageiranum, tónlist, iðngreinum, tækniþróun, ég gæti talið lengi áfram, hægt að skapa útflutningsvöru byggða á íslensku hugviti og nýsköpun — og erlendu hugviti — sem hægt væri að dreifa á internetinu. Sóknarfærin í þessu eru atvinnusköpun, markaðssókn og landkynning án þess að leggja þurfi í beinan kostnað. Það væru gjaldeyristekjur sem við fengjum.

Eins og staðan er núna erum við hins vegar að missa stór verkefni til nágrannalandanna, jafnvel verkefni þar sem Ísland er sögusviðið. Samtök iðnaðarins sendu nýlega frá sér myndband þar sem þetta er (Forseti hringir.) útskýrt kristaltært. Önnur ríki, til að mynda Írland, eru að hækka endurgreiðsluna. Þau eru að byggja stúdíó, (Forseti hringir.) þau eru að taka verkefni sem við gætum verið að fá hingað. Við höfum staðnað hérlendis (Forseti hringir.) og samkeppnin harðnar. Íslensk stjórnvöld hafa haft heilt ár til að bregðast við þessu en hafa ekki gert það. (Forseti hringir.) Og við erum að tapa á hverjum einasta degi.