151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

atvinnuleysi og staða atvinnuleitenda.

[14:04]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það mikla atvinnuleysi sem við glímum við er vissulega mikið áhyggjuefni og stærsta áskorun samfélagsins. Stjórnvöld hafa tekið það föstum tökum með fjölda vinnumarkaðsaðgerða allt frá því að heimsfaraldur skall á með tilheyrandi hruni í ferðaþjónustunni og efnahagskreppu. Atvinnuleysi er alltaf böl en fyrst og fremst mikið högg fyrir þann einstakling sem verður fyrir því og sérstaklega þegar það verður langvarandi með fjárhagslegum og félagslegum afleiðingum. Það er því mikilvægt að greina þá hópa sem verða fyrir atvinnumissi og leita allra leiða til að halda fólki í virkni og sem lengst í ráðningarsambandi. Þetta hafa verið markmið og leiðarljós stjórnvalda í öllum aðgerðum sínum síðastliðið ár til að mæta atvinnuleysinu með fjölþættum aðgerðum og taka stöðuna reglulega.

Aðgerðir hafa m.a. snúið að því að viðhalda ráðningarsambandinu og lengja hlutabótaleiðina. Við höfum lengt tekjutengda bótatímabilið, atvinnuleysisbætur voru hækkaðar um síðustu áramót, námsúrræði á atvinnuleysisbótum var komið á, sérstök desemberuppbót var greidd í fyrra og greiðslur hækkaðar vegna framfærslu barna. Í fyrrasumar var fjöldi starfa skapaður á vegum ríkis og sveitarfélaga fyrir námsmenn og skipti það miklu máli. Í boði hafa verið ráðningarstyrkir til fyrirtækja til að ráða til sín fleira fólk.

Nú síðast hefur stórátaki verið hrint úr vör sem ég bind miklar vonir við að skili góðum árangri í baráttunni við atvinnuleysið með því að verja allt að 5 milljörðum í að ráða tímabundið fólk á atvinnuleysisskrá og skapa þar með um 7.000 störf. Þetta á að geta slegið mjög á atvinnuleysið ef ríki, sveitarfélög og fyrirtæki taka höndum saman. Sem betur fer hefur atvinnuleysið verið að dragast saman og vonandi fer landið að rísa með hækkandi sól og við förum að ná tökum á því atvinnuleysi sem enginn vill sjá til langframa.