151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

atvinnuleysi og staða atvinnuleitenda.

[14:07]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Strax í fyrra þegar veiran lét á sér kræla biðluðum við í Viðreisn til ríkisstjórnarinnar að taka stór skref strax. Þau þyrftu að vera markviss og þau þyrftu að vera sértæk fyrir heimilin í landinu, fyrir fyrirtækin í landinu. En þeir aðgerðapakkar sem ríkisstjórnin hefur kynnt hafa því miður oftar en ekki reynst í nokkuð fallegum og snotrum umbúðum en skort raunverulegt innihald. Hvað er hægt að benda á? Jú, m.a. hafa verið haldnir miklir blaðamannafundir um stórtæka innviðauppbyggingu en síðan hefur komið í ljós að orðum fylgdu ekki efndir. Samdráttur var í innviðauppbyggingu upp á 10% á síðasta ári.

Reykjanesbær er líklega það sveitarfélag sem hefur tekið á sig þyngsta höggið. Róðurinn var þungur fyrir, m.a. vegna falls WOW. Aðgerðaleysi stjórnvalda gagnvart svæðinu var orðið skammarlegt löngu fyrir heimsfaraldurinn. Heimsfaraldurinn sjálfur er því ekkert skjól til að leita í þegar við ræðum atvinnuleysið á svæðinu. Í dag er það í kringum 25%. Hinar félagslegu og efnahagslegu en ekki síst andlegu afleiðingar langtímaatvinnuleysis eru alvarlegar. Samt vildi ríkisstjórnin ekki styðja okkur í því að fara í forvirkar aðgerðir, einmitt til að styðja við andlega líðan fólks og efla sérstaklega aðgang að sálfræðiþjónustu.

Það þýðir ekki að tala bara um vandann endalaust, skrifa skýrslur og halda blaðamannafundi. Skylda okkar er að tryggja rétt skref til að leysa vanda fólks núna og tímabundið á meðan við keyrum í gegnum þennan skafl. Hér áðan sagði forsætisráðherra að allt hafi orðið betra vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar. Þær voru margar fínar en það dugir ekki að segja þetta, m.a. við fólkið á Suðurnesjunum sem þar býr við eitt mesta atvinnuleysi í sögunni. Líklega er stærsta og hraðvirkasta aðgerðin sem ríkisstjórnin gæti farið í í dag (Forseti hringir.) að tryggja bólusetningarnar sem fyrst, aflétta ferðatakmörkunum 1. maí eins og vonir standa til og tryggja auðvitað að fólk utan Schengen — og ég fagna því — sem er bólusett geti komið til landsins. Þannig opnum við að nýju (Forseti hringir.) fyrir fyrirtækin á Suðurnesjunum sem tengjast flugstöðinni (Forseti hringir.) og ferðaþjónustunni svo að það geti farið (Forseti hringir.) að opna landið allt og ráða til sín fólk á ný.