151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

atvinnuleysi og staða atvinnuleitenda.

[14:19]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir þessa umræðu. Það er ömurlegt að horfa upp á atvinnuleysi tugþúsunda einstaklinga. Þrátt fyrir að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hafi hækkað atvinnuleysisbætur um 35% er enginn öfundsverður af því að lifa af þeim bótum. Þá hefur ríkisstjórnin framlengt tekjutengdar atvinnuleysisbætur í tvígang. Þær bætur eru um 450.000 kr. á mánuði eða 900.000 kr. á hjón en það fólk kallar allt á störf. Markmiðið er alltaf að hafa fólk sem styst á bótum. Það má ekki vera sérstakt markmið að láta bætur keppa við laun eins og Samfylkingin kýs. Heilsufar, lífskraftur og glötuð gleði þessa fólks býr í þeim störfum og betri afkomu sem það kallar eftir. Það er sérstakt heilsufarslegt stórmál þegar þjóðin hefur verið bólusett að við opnum landið og köllum vinnufúsar hendur til starfa. Við verðum að fylla flugvélarnar af fólki sem hefur verið bólusett í nágrannalöndum okkar og hefur vottorð upp á heilbrigði sitt. Við tökum fagnandi á móti því öllu. Við viljum flytja það hingað heim og koma ferðaþjónustunni í gang sem fyrst. Samfylkingin gleymir því að atvinnan, fyrirtækin og heimilin eru óslitin virðiskeðja sem heldur samfélaginu gangandi og að henni eigum við að hlúa. Stöðugar árásir Samfylkingarinnar á ríkisvaldið og fyrirtæki um hækkun skatta og að hvergi sé nóg að gert er sérstök vá fyrir samfélagið. Það er reyndar sérstök vá fyrir samfélagið að Samfylkingin geri nú tilkall til að leiða ríkisstjórnina eftir næstu kosningar.

Virðulegur forseti. Það er algjört forgangsmál að mínu viti að koma ferðaþjónustunni og tengdum þjónustuaðilum í gang þegar bólusetningu þjóðarinnar verður að mestu lokið í vor. Heilsubresti og brottfalli af vinnumarkaði verður aðeins snúið við með sókn í sköpun starfa eins og ráðherrann kom inn á í upphafi þessarar umræðu.