151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

atvinnuleysi og staða atvinnuleitenda.

[14:32]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil, líkt og málshefjandi þessarar umræðu, hv. þm. Oddný G. Harðardóttir, þakka fyrir umræðuna og góðar ræður sem hér hafa verið fluttar um þetta mikilvæga málefni. Mér finnast umræðurnar góðar. Ríkisstjórnin hefur gripið til margvíslegra aðgerða. Við komum strax inn með hlutabótaleiðina sem hafði það hlutverk að tryggja framfærslu fólks og viðhalda ráðningarsambandi. Síðan höfum við lengt tekjutengda tímabilið. Við höfum ráðist í margvíslegar aðgerðir. En mér finnst gæta ákveðins misskilnings þegar kemur að umræðu um að framlengja bótatímabil, af því að horft hefur verið til þess. Talað er um að framlengja bótatímabil, eins og hv. framsögumaður málsins kom inn á, þar sem atvinnuleysisbætur eru rúmar 300.000 kr. Það sem við ætlum hins vegar að gera, sem er ekki tillaga Samfylkingarinnar, er að skapa störf með sveitarfélögunum þar sem 470.000 kr. munu renna til sveitarfélaganna til þess að skapa störf fyrir þessa einstaklinga, af því að ég er hjartanlega sammála því sem hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson sagði áðan, að samfélagið verður að taka utan um þessa einstaklinga. Það erum við að fara að gera í samstarfi við sveitarfélögin. Í staðinn fyrir að setja rúmlega 300.000 kr. á mánuði í að framlengja bótatímabilið ætlum við að borga sveitarfélögunum 470.000 kr. til að skapa störf fyrir þessa einstaklinga, til að taka utan um þessa einstaklinga og tryggja þeim um leið hærri framfærslu en líka aðstoð við að komast í gang aftur, til þess að koma í veg fyrir það (Forseti hringir.) sem talað hefur verið um hér, að viðkomandi lendi á örorku. Það er grundvallaratriði.

Síðan bindum vonir við það, (Forseti hringir.) líkt og allir sem talað hafa í umræðunni, að þegar bólusetningar hefjast, þegar landið fer opnast, (Forseti hringir.) muni fara að draga úr atvinnuleysinu miklu hraðar. Við erum bara að undirbúa það með átakinu Hefjum störf, sem ég hvet alla til að kynna sér.