151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

umferðarlög.

280. mál
[15:00]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann út í tvö atriði sem ekki er komið inn á í nefndarálitinu, bara til að fá á hreint hvernig fjallað hefur verið um þau. Í fyrsta lagi varðandi a-lið 1. gr. í frumvarpinu sem snýr að því að hækka hraða í vistgötum úr 10 km í 15 km. Í greinargerð með frumvarpinu er þetta réttlætt m.a. út frá sjónarhóli þeirra sem þurfa að þola sektir fyrir að brjóta þessi hraðamörk og sagt að með þessu fáist samræmi við 15 km hraða á bílastæði. En ekki er bent á að á móti myndast misræmi við 10 km gönguhraða á göngugötum. Væri ekki eðlilegra, þar sem bílar og gangandi vegfarendur deila rými jafn augljóslega og á vistgötum og göngugötum, að hraðinn sé nær gönguhraða, sem 15 km eru ekki, sama hvað við göngum hratt? Var farið inn á þetta í umfjöllun nefndarinnar?

Hins vegar varðandi sektarheimildir í 11. gr. og hvernig fjallað hefur verið um þær. Það er sem sagt lagt til að heimilt verði að beita sektum fyrir brot gegn ýmsum ákvæðum sem snerta hjólreiðamenn. Ég velti fyrir mér hvort kerfið sé tilbúið til að taka slíkum sektarheimildum í ljósi þess t.d. hvernig umræða spannst í kringum myndbirtingu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í lok febrúar af hjólreiðamanni á Eiðsgranda þar sem komu í ljós hreinar rangtúlkanir lögreglu á þeim reglum sem um hjólreiðar gilda, hvort við þurfum ekki að laga þann grundvöll sem er í lögunum áður en við förum að búa til sektarákvæði gegn hjólreiðamönnum, sem ég held að séu ekki stærsti skaðvaldurinn í umferðinni.