151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

umferðarlög.

280. mál
[15:03]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Vilhjálmur Árnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar tvær spurningar. Þær komu vissulega báðar til umræðu í nefndinni og var töluvert fjallað um þetta, komið inn á umsagnir frá gestum og annað slíkt. Varðandi 15 km, að fara úr 10 upp í 15 hraða, þá tókum við gild rök og ástæður sem fram koma í greinargerðinni um að á þessum hraða væru vikmörkin það lítil, það væri svo stutt á milli og erfitt að greina það að það væri eðlilegra að hafa þetta eins og annars staðar, það væri visst flækjustig að breyta þessu fyrir e.t.v. minni árangur. Engar rannsóknir eða tölur sýna að meira umferðaröryggi sé náð á 5 km hraða, þannig að þetta var talin eðlilegasta breytingin og ekki talin ástæða til að fjalla nánar um það í nefndarálitinu.

Varðandi 11. gr. þá ræddu hjólreiðamenn þetta mikið. Ég tek alveg undir að það er svolítið óljós sektargrundvöllur, hvort viðkomandi sé á gönguhraða. Hjólreiðamenn lögðu til að breyta þessu í hlaupahraða. Við leggjum ekki til þá breytingu af því að ég held að það sé jafn erfitt að meta hlaupahraða og gönguhraða, þannig að það hefði kannski ekki náð markmiði sínu að skýra eitthvað eða gera eitthvað eðlilegra. Það eina sem gildir er hvað telst eðlilegt miðað við aðstæður, miðað við almennu varúðarregluna. Ég myndi telja að það sé það eina sem gildir í þessu á meðan við höfum ekki hraðamælingu á reiðhjólum.