151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

umferðarlög.

280. mál
[15:05]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Ég vil ræða tvær greinar frumvarpsins sem ég kom inn á rétt áðan í andsvörum við hv. þm. Vilhjálm Árnason. Fyrst vil ég víkja að a-lið 1. gr. frumvarpsins sem snýst um að hækka hraða úr 10 km í 15 km í vistgötum. Sú breyting var gerð þegar ný umferðarlög voru samþykkt hér á þingi að hámarkshraði í vistgötum var færður úr 15 km í 10 km. Því er mjög stutt síðan sú breyting var gerð. Nú er komin tillaga frá ráðherra um að snúa þessu við og þau rök sem færð eru fyrir því í greinargerð þykja mér horfa óþarflega mikið á aðra hliðina frekar en allar hliðar. Þar stendur, með leyfi forseta, að akstur á meira en tvöföldum hámarkshraða varði sviptingu ökuréttinda ekki skemur en þrjá mánuði. Vegna þess leggur ráðherrann til að miða hámarkshraðann við 15 km á klukkustund. Sem sagt: Til þess að fólk sem brýtur umferðarlög sé í minni hættu á að fá hærri sektir eða verða fyrir sviptingu ökuréttinda á að rýmka hámarkshraðann. Það sem gerist á móti er náttúrlega að vistgatan verður ekki jafn öruggt rými fyrir alla aðra vegfarendur.

Í greinargerð frumvarpsins, sem varð að gildandi umferðarlögum, stendur t.d., með leyfi forseta:

„Vistgötur eru einkum ætlaðar til dvalar og leiks en umferð ökutækja er þar engu að síður heimil með takmörkunum.“

Bílar eru gestir í vistgötum samkvæmt þessum texta. Vistgötur eru einkum ætlaðar til dvalar og leiks. Og í eldri umferðarlögum stóð um vistgöturnar að ef gangandi vegfarendur væru nærri mætti ekki aka hraðar en á venjulegum gönguhraða. Það datt út þegar skýr 10 km hámarkshraði var settur á vistgöturnar.

Virðulegi forseti. Ég held einfaldlega að það sé rangt skref að hækka hámarkshraðann í vistgötum svo stuttu eftir að hann var settur á þann stað sem hann er í gildandi lögum. Það væri skref sem myndi vinna gegn tilgangi vistgatna samkvæmt greinargerð frumvarpsins. Það myndar þar að auki misræmi við þau hraðamörk sem eru í sambærilegu göturými, sem eru göngugöturnar. Í þeim tilvikum sem bílum er á annað borð heimilt að aka um göngugötur er þeim heimilt að aka á 10 km hraða. Gönguhraði er auðvitað ekki hávísindaleg mælieining en 10 km hraði er ágætur skokkhraði og 15 km hraði er bara fínasti hlaupahraði. Ef bíll heldur sig innan þess að tvöfalda þann hámarkshraða er hann samt á 30 km hraða, sem er stórhættulegur hraði í því blandaða göturými sem vistgatan er. Hér tel ég því rétt og eðlilegra að miða við gönguhraða, sem 15 km hámarkshraði bíla er fjarri, sama hvar við setjum markið við gönguhraðann. Ég myndi því leggja til, í ljósi þess að nefndin ætlar að taka málið inn á milli umræðna, að þetta verði skoðað betur og athugað hvort ekki megi fella þessa breytingu brott.

Hitt atriðið sem mig langar að ræða er sektarheimildin sem lögð er til í 11. gr. frumvarpsins, þ.e. grein þar sem er lagt til að heimilt verði að beita sektum fyrir brot gegn ákvæðum 43. gr. umferðarlaga um undanþáguheimildir fyrir hjólreiðamenn. Þar er m.a. kveðið á um skyldu hjólreiðamanna til að gæta varkárni, sérstaklega þegar er hjólað á gangstétt, göngustíg eða göngugötu, og víkja fyrir gangandi vegfarendum, nota bjöllu og allt hvað eina. Ég tek undir með hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni að mjög margt í 43. gr. umferðarlaga hefur mjög óljósan sektargrundvöll, enda var ákvæðið ekki endilega sett inn í lögin til að vera grundvöllur sekta. Þar að auki er óljóst hver þörfin er fyrir þessa breytingu.

Í rökstuðningi við frumvarpið kemur fram að fyrir liggi einhverjar greiningar á því að tillitssemi hjólreiðafólks sé almennt áfátt. Helst er hægt að vísa í óljósar frásagnir á samfélagsmiðlum þar sem umræðan verður ótrúlega oft heiftúðug í garð hjólreiðafólks. Nærtækt dæmi er frá febrúarlokum þegar lögreglan á höfuðborgarsvæðinu birti mynd sem vegfarandi hafði sent henni. Þar hafði vegfarandinn lagt fram spurningu um hvort löglegt væri að hjóla á miðri götu og valda umferðartöfum á vegi þar sem 50 km hámarkshraði væri leyfður. Myndin var tekin úti á Eiðsgranda og könnun á GPS-gögnum viðkomandi hjólreiðarmanns leiddi í ljós að hann var á um 47 km hraða, þannig að ekki olli hann miklum töfum. En ökumanninum sem tók mynd undir stýri þótti ástæða til að fá lögregluna með sér í lið til að útskýra fyrir þessum hjólreiðamanni að hann mætti ekki vera á götunni. Hér gerðist það alvarlega, að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sagði, með leyfi forseta:

„Þar sem að leyfður hámarkshraði er 50 km á klst. á Eiðsgranda þar sem myndin er tekin er því bannað að hjóla á miðri akrein.“

Þetta er bara rangt. Það hefur t.d. komið fram í svari lögfræðings ríkislögreglustjóra við fyrirspurn sem Sigurður Jónas Eggertsson sendi og birti í gær á Facebook-svæði sem heitir Reiðhjólabændur, ef ég man rétt. Þar kemur fram að ríkislögreglustjóri túlkar það sem svo að vel geti verið heimilt fyrir reiðhjól að vera á miðri akrein þar sem hámarkshraði er 50 km. Það fari eftir aðstæðum hvort það sé bannað eða ekki. Og þar sem þessi tiltekni hjólreiðamaður var á Eiðsgrandanum bendir allt til þess að hann hafi verið í fullkomnum rétti þrátt fyrir það sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir. En það sem þetta sýnir og ástæðan fyrir því að ég nefni þetta tiltekna dæmi er að það er bara lagaleg óvissa um hvernig túlka eigi ákvæði umferðarlaga um hjólreiðar. Það er lagaleg óvissa um flest af því sem heyrir undir 43. gr. umferðarlaga myndi ég halda. Þar að auki er óljóst hvaða tilgangi það myndi þjóna að vera með sektarheimild á grundvelli þeirra ákvæða. Í ljósi alls þessa beini ég því aftur til umhverfis- og samgöngunefndar, sem ætlar góðu heilli að taka málið inn á milli umræðna, að skoða hvort ekki megi fella niður 11. gr. frumvarpsins, vegna þess að þetta er mögulega ágæt hugmynd sem þarfnast bara miklu meiri ígrundunar áður en henni er hrint í framkvæmd.