151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

ný þýðing á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

568. mál
[15:25]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um nýja þýðingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Í tillögunni er lagt til að ný þýðing taki við af þeirri þýðingu sem fylgdi með tillögu til þingsályktunar nr. 61/145 um fullgildingu samningsins. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í desember 2006.

Ísland undirritaði samninginn í mars 2007 og fullgilti hann í september 2016. Markmið samningsins er að efla, verja og tryggja full og jöfn mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir fatlað fólk til jafns við aðra. Líkt og venjan er með alþjóðlega mannréttindasamninga var samningurinn þýddur yfir á íslensku fyrir fullgildingu hans. Opinber þýðing samningsins fylgdi tillögu þeirri er varð að þingsályktun nr. 61/145 árið 2016, en sú þýðing, ásamt enskri útgáfu samningsins, var fylgiskjal með auglýsingu nr. 5/2016, sem birt var í C-deild Stjórnartíðinda 29. júní 2017.

Þýðingin hefur þó verið gagnrýnd, bæði af fræðasamfélaginu og hagsmunasamtökum fólks með fötlun. Þessi vinna hófst við skrif á fyrstu skýrslu Íslands um framkvæmd samningsins sem nýlega var skilað til nefndar Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og var rík áhersla lögð á samráð við fatlað fólk sem og aðra hagsmunaaðila. Í því samtali voru ábendingar og gagnrýni á þýðinguna áberandi og ítrekað bent á að þýðing á sumum hugtökum væri röng, byggð á misskilningi og jafnvel í einhverjum tilvikum talin ganga gegn markmiðum samningsins. Í ljósi þess hversu mikilvægt það er að íslenskar þýðingar á alþjóðlegum mannréttindasamningum séu í samræmi við frumtexta þeirra og dragi ekki úr vernd þeirra réttinda sem þeim er ætlað að tryggja, var ákveðið að endurskoða þýðinguna. Sá vinnuhópur sem skipaður var til að skrifa fyrstu skýrslu Íslands um samninginn hélt utan um verkefnið með aðstoð frá sérfræðingi í réttindum fatlaðs fólks við lagadeild Háskóla Íslands. Farið var yfir núgildandi þýðingu með hliðsjón af þeim athugasemdum sem fram hafa komið frá fræðasamfélaginu, hagsmunasamtökum og öðrum aðilum. Lögð hefur verið rík áhersla á samráð við vinnunna og hefur góðri sátt verið náð um þýðinguna, auk þess sem hún er talin endurspegla vel frumtexta samningsins.

Meðal helstu breytinga sem gerðar hafa verið á þýðingunni má nefna að lagt er til að ekki verði lengur talað um fatlað fólk sem frávik, enda er slíkt orðalag niðrandi og í engu samræmi við þá hugmyndafræði sem samningurinn boðar. Þess í stað er vísað til virðingar fyrir fjölbreytni. Annað dæmi er að í núgildandi þýðingu er „freedom of movement“ þýtt sem umferðarfrelsi, en réttara þykir að nota hugtakið ferðafrelsi í því sambandi. Aðrar þýðingar í núgildandi útgáfu eru taldar þrengja verulega merkingu frumtextans. Má þar taka nokkur dæmi eins og „access to justice“ er nú þýtt sem aðgangur að réttarvörslukerfinu, en ef nýja þýðingin verður samþykkt verður það þýtt sem aðgangur að réttinum. Þá er lagt til að „legal capacity“ verði þýtt sem löghæfi en ekki gerhæfi. Þar að auki eru lagðar til ýmsar fleiri orðalagsbreytingar sem miða að því að skýra þýðinguna, gera hana aðgengilegri og í mun betra samræmi við frumtexta.

Hæstv. forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efni tillögunnar og legg til að henni verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.