151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

fullnusta refsinga.

569. mál
[15:36]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta og tek alveg undir það að breytingin sem slík er mjög mikilvæg, burt séð frá stöðunni á boðunarlistanum. Ég lét vinna róttækar tillögur til að ráðast á boðunarlistann. Fangelsisplássin anna að mestu leyti dæmdum refsingum á ári, en það er boðunarlistinn sem kemur í veg fyrir að við náum að láta þetta rúlla eðlilega og fólk þarf að bíða lengur en þrjú ár eftir afplánun. Ég vildi því ráðast í róttækar aðgerðir til að ná niður þessum boðunarlista, eins og við höfum séð gerast í löndunum í kringum okkur, og þetta var ein af þeim tillögum sem kom frá starfshópnum. Hann lagði til að þetta yrði varanleg breyting. Ég er fylgjandi því að úrræðið verði gert varanlegt en legg til að það verði tímabundið til þriggja ára svo við getum lagt betur mat á hvaða áhrif breytingarnar hafa, m.a. á ítrekunartíðni. Ég hef mikla trú á að þetta geti minnkað endurkomutíðni. Ég hef trú á að þetta muni skila sér mjög vel fyrir þá sem fremja afbrot og fá 12–24 mánaða dóm, sem mun þá falla undir samfélagsþjónustu. Ég tel að unnt sé að leggja mat á það með betri hætti en náðist að gera í undirbúningi þessa frumvarps, hvort æskilegt sé að gera slíkar breytingar til framtíðar sem og að taka betur til skoðunar þá umræðu, sem ég held að færi oftar fram ef þetta væri varanlegt úrræði, um hvort ákvörðun um samfélagsþjónustu eigi að vera stjórnvaldsákvörðun eða í höndum dómstóla. Það er misjafnt eftir löndunum í kringum okkur. Ég held að sú umræða yrði miklu þyngri og meiri og eðlilega þarf að taka hana, hún þarf að fara fram.

En ég legg til að þetta verði gert með þessum hætti til þriggja ára, sem hefur reynst vel og gagnast vel, og á þeim tíma verði hægt að taka varanlegar og vonandi breytingar í þessa átt, til lengri tíma.