151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

fullnusta refsinga.

569. mál
[15:38]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú vill svo til að ég er sammála hæstv. ráðherra um að það væri betra að hafa ákvæðið varanlegt. Ég átta mig ekki alveg á því út frá svörum hæstv. ráðherra hvers vegna það er þá ekki varanlegt í frumvarpinu. Ég vil þá spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé nokkuð því til fyrirstöðu að hv. allsherjar- og menntamálanefnd breyti frumvarpinu í þá veruna, ég heyri alla vega ekki á ræðu hæstv. ráðherra að hún hefði neitt út á það að setja.

Ég verð líka að segja, óháð þessu, að ég myndi vilja hafa þetta ákvæði inni, einfaldlega vegna þess að ég tel það heppilegra til að sinna viðfangsefni fangelsismálakerfisins, sem ætti að mínu mati að vera betrun en er í það minnsta viðbrögð við afbrotum og hvað við eigum að gera við fólk sem brýtur af sér og við neyðumst greinilega til að refsa. Mér finnst það miklu eðlilegra inntak spurningarinnar um það hvort við viljum svona breytingar eða ekki.

Ég átta mig alveg á þessu boðunarlistavandamáli, það er ekki nýtt þótt það sé að versna, en mér finnst það vera skrýtinn hvati fyrir breytingu. Ég hefði haldið að hvatinn fyrir svona breytingu væri einfaldlega að við teldum fangelsismálakerfi betra og betur til þess fallið að t.d. minnka endurkomutíðni og þess háttar. En þá myndum við alltaf, hygg ég, setja inn varanlega breytingu sem við myndum síðan breyta eftir atvikum eftir á.

En alla vega, ég ætla að fara í stutta ræðu, ef virðulegur forseti setur mig á mælendaskrá að loknum þessum andsvörum, og fara aðeins út í það sem hæstv. ráðherra fór yfir í sambandi við að Fangelsismálastofnun taki í raun ákvarðanir um eðli refsingarinnar líka, sem er skrýtið og misjafnt eftir löndum, eins og ráðherra fór yfir. En ég skil hæstv. ráðherra þannig að hún myndi alla vega ekki setja sig upp á móti því ef nefndin myndi eftir umfjöllun sína leggja til að gera þessi ákvæði varanleg.