151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

þjóðkirkjan.

587. mál
[15:58]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um þjóðkirkjuna. Um er að ræða heildarlög sem ætlað er að koma í stað gildandi laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997. Með þeim lögum var sjálfstæði kirkjunnar aukið verulega og ákvörðunarvald um skipan mála í þjóðkirkjunni fært í ríkara mæli til kirkjuþings. Þeirri þróun hefur síðan verið fram haldið með frekari breytingum sem orðið hafa á þeim lögum og kirkjuþing hefur í auknum mæli sett starfsreglur um fjölmörg atriði í stjórnskipan kirkjunnar sem áður voru bundin í lög. Þannig hefur stjórnsýsla kirkjunnar smám saman verið að breytast og eflast og töluverð reynsla verið byggð upp í starfi kirkjuþings. Frumvarp þetta byggir á þeirri þróun og yfir 20 ára reynslu sem kirkjuþing býr að. Frumvarpið gerir þannig ráð fyrir enn meira sjálfstæði þjóðkirkjunnar og miðar að því að færa sem flest ákvæði sem lúta að starfsemi kirkjunnar úr lögum í starfsreglur frá kirkjuþingi.

Tilefni frumvarpsins má rekja til viðbótarsamnings um endurskoðun á svokölluðu kirkjujarðasamkomulagi frá árinu 1997 og samningi um nánari útfærslu á því frá árinu 1998 sem undirritað var af fulltrúum íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar 6. september 2019. Með viðbótarsamningnum var stefnt að því að einfalda fyrirkomulag á greiðslum ríkisins til þjóðkirkjunnar og auka jafnframt sjálfstæði þjóðkirkjunnar í fjármálum og starfsmannamálum. Samningurinn miðar að því að þjóðkirkjan beri fulla ábyrgð á eigin fjármálum og fjölda starfsmanna.

Til að framfylgja efnisatriðum samningsins voru samþykkt tvenn lög um breytingar á lögum, m.a. lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Sneru þær lagabreytingar annars vegar að launamálum og starfsmannamálum þjóðkirkjunnar, samanber lög nr. 153/2019, og hins vegar einkum að sjóðum kirkjunnar vegna árlegrar gagngreiðslu ríkisins til þjóðkirkjunnar, samanber lög nr. 95/2020. Með viðbótarsamningnum fylgdi viljayfirlýsing þar sem fram kemur að stefnt skuli að því að fulltrúar þjóðkirkjunnar og ríkisins vinni að yfirferð yfir gildandi lög um þjóðkirkjuna með það að markmiði að einfalda regluverk hennar. Sú vinna hefur farið fram að undanförnu og byggir frumvarp það sem hér um ræðir á samvinnu dómsmálaráðuneytisins og fulltrúa þjóðkirkjunnar um heildarendurskoðun á lögum um þjóðkirkjuna. Var frumvarpið m.a. samþykkt á kirkjuþingi 15. september 2020.

Tilgangur frumvarpsins er m.a. að efla enn frekar sjálfstæði þjóðkirkjunnar og einfalda mjög reglur um hana með því að nema úr lögum fjölmörg ákvæði um starfsemi hennar en fela þess í stað kirkjuþingi ákvörðunarvald um þau með setningu starfsreglna. Í raun eru mörg ákvæði sem varða gildandi lög nú þegar komin í starfsreglur sem kirkjuþing hefur sett. Í samræmi við þróun laganna er sú heimild víkkuð umtalsvert með enn meira sjálfstæði kirkjunnar.

Þar sem frumvarpið felur í sér töluverðar breytingar frá núgildandi lögum og hefur að geyma mun færri ákvæði um þjóðkirkjuna en lögin í dag kveða á um hefur sú leið verið valin að leggja fram frumvarp að nýjum heildarlögum í stað lagabreytinga. Í frumvarpinu er fjallað um grundvöll þjóðkirkjunnar og skilgreiningu og tengsl hennar við ríkið en sambærileg ákvæði eru í lögum í dag. Þá er nýmæli að fjallað sé um þá þjónustu sem kirkjan veitir, bæði vígða og aðra þjónustu sem kirkjan heldur úti, sem er þá þjónusta sem alla jafna hefur verið til staðar. Ákvæði eru um inngöngu og úrsögn úr þjóðkirkjunni sem byggja á lögum um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög og fjallað er um sóknir og söfnuði þjóðkirkjunnar. Þar er þó aðeins getið um grunnreglur en í samræmi við markmið frumvarpsins er gert ráð fyrir að kirkjuþing setji frekari ákvæði um þau mál í starfsreglur. Síðan eru ákvæði um kirkjuþing sem fer með æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar, þar á meðal fjárstjórnarvald sem nú er lagt til að kveðið verði sérstaklega á um í lögum. Ákvæði eru um helstu atriði er varða kosningu til þingsins og kosningu þingforseta sem eru óbreytt frá gildandi lögum en hins vegar er gert ráð fyrir að settar verði starfsreglur um önnur atriði er varða kirkjuþing sem nú er mælt fyrir um í lögunum. Þá er í frumvarpinu nýmæli um afgreiðslu mála hjá þinginu ef þingfulltrúar hafa tiltekinna hagsmuna að gæta við meðferð þeirra. Ákvæði um biskupa og biskupsdæmi eru efnislega þau sömu og í gildandi lögum en eru mun færri. Til að mynda er gert ráð fyrir að reglur um biskupskjör verði alfarið í starfsreglum kirkjuþings. Áfram er ákvæði um samninga milli þjóðkirkjunnar og ríkisins sem er í samræmi við það sem kemur fram í lögunum í dag en þó nú með breyttu orðalagi um árlegar greiðslur ríkisins til þjóðkirkjunnar í samræmi við hinn nýja viðbótarsamning.

Segja má að ein meginbreytingin sem frumvarpið felur í sér sé ákvæði 8. gr. um að kirkjuþing setji starfsreglur um málefni þjóðkirkjunnar. Þrátt fyrir að kirkjuþing setji í dag starfsreglur um fjölmörg atriði á grundvelli gildandi laga felst í þessu ákvæði mun víðtækari og almennari heimild til setningar starfsreglna enda er gengið út frá því í lögunum í dag að kirkjuþing setji starfsreglur um tiltekin málefni. Með frumvarpinu er hins vegar lagt til að fjölmörg ákvæði gildandi laga falli brott og í stað þeirra setji kirkjuþing starfsreglur sem eru um önnur atriði sem hún telur þörf á enda stangist það ekki á við almenn lög.

Frumvarp þetta felur í sér verulega einföldun á regluverki þjóðkirkjunnar og verði það að lögum mun sjálfstæði hennar aukast til muna og ákvörðunarvald hennar að langmestu leyti vera á hendi kirkjuþings. Þess má einnig geta að í frumvarpinu er lagt til að fjölmörg eldri lagaákvæði og réttarreglur sem eru frá 18. öld og fyrri hluta 19. aldar falli brott enda eru mörg þeirra löngu úrelt eða hafa runnið sitt skeið. Margt af því sem þar kemur fram er nú kveðið á um í starfsreglum kirkjuþings en á meðal þeirra reglna er bréf kansellísins um tilhögun á kirkjuhurðum.

Frumvarpið er áfangi í áttina að fullum aðskilnaði ríkis og kirkju. Hér er verið að færa lögin til nútímans og fjarlægja fjölmörg ákvæði sem ástæðulaust er að hafa í lögunum eftir að búið er að ákveða að þjóðkirkjan taki yfir fjárhagslegt skipulag og innra skipulag. Ég hef lýst þeirri skoðun minni að stefna beri að því marki að aðskilja ríki og kirkju. Það gerði ég t.d. í ávarpi til kirkjuþings. En ég tel mikilvægt að stíga varlega til jarðar og taka skref í þá átt. Þetta frumvarp er einn liður í því en það er unnið í góðu samstarfi ráðuneytisins og fulltrúa þjóðkirkjunnar.

Lagt er til að frumvarpið taki gildi 1. júlí 2021 svo að kirkjuþing geti í samræmi við ný lög undirbúið setningu og breytingu starfsreglna og samþykkta eftir atvikum á næsta kirkjuþingi sem ráðgert er að haldið verði næstkomandi haust.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir helstu efnisatriðum frumvarpsins og legg til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.