151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

þjóðkirkjan.

587. mál
[16:05]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að mér þykir stundum svolítið sérstakt að hlusta á fólk tala um aðskilnað ríkis og kirkju, sér í lagi kirkjunnar menn tala um aðskilnað ríkis og kirkju þegar um er að ræða það að auka sjálfstæði kirkjunnar en hins vegar þannig að hún hafi áfram hin sérstöku forréttindi sem hún nýtur í skjóli stjórnarskrár og sögunnar. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Í þeim skrefum sem ráðherra segist vilja taka í átt að fullum aðskilnaði ríkis og kirkju, hvar á þeirri vegferð verður þjóðkirkjan alfarið á sama stað og önnur trú- og lífsskoðunarfélög, þar á meðal fjárhagslega? Það virðist nefnilega einhvern veginn alltaf verða eftir. Það má auka sjálfstæði kirkjunnar í þeim skilningi að hún fái að ráða sér meira sjálf en það að hún hafi sérstakan ríkisstuðning virðist ekki breytast mikið jafnræðinu í vil, ef svo mætti að orði komast. Ég velti fyrir mér hvort einhver misskilningur sé í þeirri greiningu hjá mér sem hæstv. dómsmálaráðherra gæti bent mér á. Spurningin er eins og ég orðaði hana áðan: Á hvaða tímapunkti í þessari vegferð aðskilnaðar ríkis og kirkju telur dómsmálaráðherra heppilegt að gera fjárhagslega stöðu þjóðkirkjunnar gagnvart ríkissjóði nákvæmlega þá sömu og annarra trú- og lífsskoðunarfélaga?