151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

þjóðkirkjan.

587. mál
[16:14]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Hér er um nýja heildarlöggjöf að ræða um þjóðkirkjuna og mun hún fela í sér verulega einföldun á regluverki frá gildandi lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar og aukið sjálfstæði. Eins og komið hefur fram hjá hæstv. ráðherra eykst sjálfstæði þjóðkirkjunnar stórlega og ákvörðunarvald hennar verður að mestu í höndum kirkjuþings. Samkvæmt samþykkt þessa frumvarps verður þjóðkirkjan sjálfstæðari en áður í öllum sínum verkum og ég fagna því. Íslenska ríkið greiðir þjóðkirkjunni árlega gagngreiðslu á grundvelli samninga milli þjóðkirkjunnar og ríkisins. Með samkomulagi ríkis og kirkju frá árinu 1907 fékk ríkið umsjón með jarðeignum kirkjunnar sem átti þá um 25% landsins. Árið 1997 fékk ríkið jarðirnar til eignar. Þjóðkirkjan afhenti ríkinu jarðeignir sínar gegn endurgjaldi í formi launa til tiltekins fjölda presta og starfsmanna. Þetta þekkjum við og við höfum rætt þau mál hér. Samkomulagið stendur óhaggað. Eins og kom einnig fram hjá hæstv. ráðherra var síðan gert samkomulag í september 2019, viðbótarsamkomulag um fjárhagsleg málefni ríkis og kirkju sem einnig hefur verið samþykkt hér á Alþingi.

Herra forseti. Ég er dyggur stuðningsmaður kirkjunnar og það á svo sem ekki að koma þingheimi á óvart. Ég hefði t.d. viljað sjá kirkjuna vera virkari í almennri þjóðmálaumræðu. Kirkjan er oft þögul í málum sem skipta miklu máli að mínum dómi. Þannig á kirkjan ekki sitja þögul hjá þegar sótt er að kristinni trú, kristnum gildum og kristinni menningu í okkar ágæta landi. Hún á heldur ekki að sitja þögul hjá þegar fjallað er um ofsóknir gegn kristnum sem viðgangast víða um heim. Samkvæmt tölum Sameinuðu þjóðanna falla hundruð kristinna í hverjum mánuði af völdum ofsókna. Talið er að 245 milljónir kristinna manna sæti alvarlegum ofsóknum vegna trúar sinnar en ríflega 4.000 létu lífið á síðasta ári af þeim sökum. 80% allra trúarofsókna í heiminum beinast gegn kristnu fólki. Kirkjan lætur sig málefni flóttamanna varða og er það vel en hún á einnig að minna á að kristnir eru sá trúarhópur í heiminum sem verður mest fyrir barðinu á ofsóknum.

Ég vil vekja athygli á því sem segir í frumvarpinu, í kaflanum um mat á áhrifum þess, með leyfi forseta:

„… þjóðkirkjulögin verði einföld rammalöggjöf en kirkjuþing muni setja eða samþykkja starfsreglur, samþykktir og ályktanir um alla starfsemi kirkjunnar …“

Nú hefur frumvarpið fengið mikinn undirbúning innan kirkjunnar, eins og kemur fram í frumvarpinu, og í þeim undirbúningi veit ég að áhersla var lögð á að tryggt væri að það sem félli brott úr núgildandi lögum fengi meðferð í starfsreglum kirkjuþings. Þá er eðlilegt að spyrja: Hefur kirkjuþing lokið sinni vinnu með fullnægjandi hætti hvað það varðar? Ég er þeirrar skoðunar að ekki sé hægt að ganga frá texta laganna eða frumvarpinu nema sýnt sé fram á að kirkjan hafi einnig unnið sína heimavinnu og að hún hafi gert það með fullnægjandi hætti. Það er eitthvað sem nefndin verður að fara yfir, að mínu mati, í störfum sínum og kalla til gesti sem geta varpað ljósi á það að hlutverki kirkjuþings í þessu ferli sé lokið svo að allir megi vel við una. Í raun og veru má segja og ég tel að það væri svolítið ábyrgðarleysi af hálfu löggjafans að reyna ekki að tryggja að þjóðkirkjan starfaði innan skýrs lagaramma, einnig að því leyti sem henni er sjálfri falið að setja sér innri reglur.

Starfsreglur kirkjuþings hafa til þessa allar verið byggðar á forsendum gildandi laga og hafa fengið númer með sama hætti og reglugerðir ráðuneytanna. Nú má segja að þau tengsl glatist og í raun er enginn sem sér um innra eftirlit með kirkjunni nema hún sjálf. Þegar um er að ræða fjöldahreyfingu, eins og kirkjan sannarlega er þótt verulega hafi fækkað í þjóðkirkjunni síðustu árin, myndi ég vera varkár í þessum efnum þó að ég myndi samt alls ekki vilja snúa til baka til meiri afskipta hins opinbera af kirkjunni. Mér finnst sömuleiðis of langt gengið í að breyta kirkjunni í fyrirtæki í rekstri, ef svo má að orði komast. Réttarstaða presta, prófasta og biskupa er gerð óviss og allt vald sett í hendur miðstýringar á Biskupsstofu þó að það eigi að heita að kirkjuþing sé æðsta vald í málefnum kirkjunnar, nema að því er varðar kenninguna og helgisiðina. Það vald liggur áfram hjá biskupi en staða biskups gagnvart kirkjuþingi og kirkjunni í heild er þó nokkuð í þoku að mínum dómi.

Herra forseti. Elsta embætti Íslandssögunnar er biskupsembættið. Það er því hluti af sögu okkar, hluti af kirkjusögunni og arfleifð okkar. Frumvarpið gerir ráð fyrir að breyta því þannig að embættið sem slíkt verði ekki lengur til heldur verði það bara eins og hvert annað starf. Spyrja má: Á þá biskup að vera nokkurs konar forstjóri sem á að hafa fullt vald á rekstri þess stórfyrirtækis sem þjóðkirkjan á þá væntanlega að vera, ef svo má að orði komast? Það er spurning hvort menn geri ekki of mikið úr þeim þætti. Ég verð að segja, herra forseti, að mér finnst niðurlægjandi gagnvart biskupsembættinu og menningarsögulegum þætti þess í Íslandssögunni að það verði ekki lengur til sem slíkt. Ég tel, herra forseti, að biskupsembættið eigi að fá að heita svo áfram þó svo að biskup verði ekki lengur opinber embættismaður ríkisins. Það varð hann ekki fyrr en með þeim breytingum á stöðu kirkjunnar sem komu með stjórnarskránni. Þótt biskup hafi orðið nokkurs konar undirsáti konungs með siðbreytingunni varð engin breyting á embætti hans í kirkjulegum skilningi. Hið heilaga prests- og predikunarembætti verður heldur ekki lagt niður með lögum nema kirkjunni sé bannað að nota þau heiti. Nægir að vísa til þess að engin breyting varð á þessu samkvæmt þýskum kirkjurétti og þýskum lögum þó að fullur aðskilnaður ríkis og kirkju hafi orðið í Þýskalandi árið 1919. Þess vegna tel ég, herra forseti, að eðlilegt sé að nefndin fari yfir þennan þátt málsins. Þetta er jú, eins og ég sagði réttilega, elsta embætti Íslandssögunnar. Eigum við ekki að halda í slíkar hefðir þar sem þetta er nú hluti af menningarsögu okkar? Ég minni t.d. á að í Bretlandi halda menn í ýmsa titla og hefðir sögunnar vegna. Það fær ekki staðist að hægt sé að banna kirkjunni að tala um embætti vegna þess að kirkjan sé ekki lengur ríkisrekin og embættismenn kirkjunnar séu ekki opinberir starfsmenn. Prestar, prófastar og biskupar kirkjunnar hafa fengið að vera embættismenn átölulaust þó að í lögum hafi lengi staðið að einungis séu þeir embættismenn sem starfa hjá ríkinu eða hjá stofnunum í eigu ríkisins. Ég kannast ekki við að þjóðkirkjan hafi nokkru sinni verið eign ríkisins, ekki einu sinni meðan hún var hrein ríkiskirkja.

Að lokum, herra forseti: Á umliðnum áratugum hefur kirkjan þurft að mæta nýjum viðfangsefnum. Tímarnir hafa breyst og þjóðkirkjufólki fækkað. Þess vegna hefur kirkjan þurft að skilgreina sig í vaxandi mæli sem ein af mörgum stofnunum samfélagsins, ólíkt því sem áður var þegar litið var á þjóð og þjóðkirkju sem eina samstæða heild. Það er margt ágætt í þessu frumvarpi en þó eru hlutir sem þarf að laga og ég vona að nefndin horfi til þess. Hér áðan minntist hæstv. ráðherra á kirkjuhurðir og ég sakna þess sérstaklega að leggja eigi niður sérstök fyrirmæli um kirkjuhurðir. Þær eru merkilegar í sjálfu sér og ekki þarf annað en að horfa til kirkjuhurðar Hallgrímskirkju sem er hreint stórkostlegt listaverk.

Ég vona að frumvarpið fái vandaða meðferð í þinginu. Ég tel þjóðkirkjuna mikilvæga fyrir íslenskt samfélag í fortíð, nútíð og framtíð. Hún er mikilvægur vitnisburður um að við sem þjóð stöndum á sögulegum og menningarlegum grunni kristinnar trúar og gilda. Við eigum að standa vörð um þá arfleifð og áhrif hennar í íslensku samfélagi, arfleifð sem byggir á því að íslenskt samfélag og kristinn siður og gildi eiga nú sem fyrr samleið.