151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

þjóðkirkjan.

587. mál
[16:28]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og góð orð. Já, ég tel að það þurfi að breyta frumvarpinu örlítið og vísa þá t.d. til þess þegar ég ræddi um biskupsembættið. Ég hefði viljað sjá að það fengi áfram að lifa þótt biskup væri ekki endilega opinber starfsmaður, bara sögulega séð sem elsta embætti Íslandssögunnar. Eins og ég nefndi í minni ræðu hefði ég gjarnan viljað sjá að við myndum áfram nota hugtakið embætti um biskup Íslands og mér finnst það hæfa vel þessu sögulega merkilega embætti og mikilvæga embætti. Ég hefði því viljað sjá breytingu hvað það varðar í frumvarpinu. Hvort ég sjái fyrir mér að eitthvað sé tekið úr frumvarpinu? Nei, ég hef svo sem ekki lagt upp með það en ég tel hins vegar eðlilegt að nefndin fari yfir það í vinnu sinni hver staðan á málinu er innan kirkjuþings, að eðlilegt sé að fá upplýsingar um það vegna þess að kirkjuþing fær mjög mikið hlutverk með þessum breytingum, nýju lögum, og á þar með að uppfylla ákveðna þætti sem áður hafa verið í lögum. Þá finnst mér eðlilegt að við sem löggjafinn spyrjumst fyrir um það hvernig þeirri vinnu miðaði áfram, rétt eins og við gerum í mörgum öðrum málum þegar við fáum gesti fyrir nefndir Alþingis, þegar við fylgjumst með hvernig lagaframkvæmd er og annað slíkt. Þessu tvennu hefði ég viljað sjá að yrði fylgt eftir. Ég útiloka ekki að ég komi með breytingartillögu sem snýr að biskupsembættinu.