151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

þjóðkirkjan.

587. mál
[16:31]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Enn og aftur tölum við á hinu háa Alþingi um trúmál. Mér þykir alltaf jafn skrýtið þegar við fjöllum um þingmál sem varða efnislega trúarsannfæringu almennings, þjóðarinnar vilja sumir meina, en auðvitað er þjóðin ekki einungis sinn eigin meiri hluti og sömuleiðis er þjóðin ekki einstaklingur og getur ekki haft trúarsannfæringu.

1. gr. þessa frumvarps er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Þjóðkirkjan á Íslandi er evangelískt lúterskt trúfélag.“

Ef við gefum okkur að samband ríkis og kirkju í dag sé eðlilegt fyrir lýðveldi, lýðræðislegt frjálslynt þjóðríki, sem ég tel það ekki vera, og ef við teljum það góða hugmynd að hafa sérstakt trúfélag nefnt í stjórnarskrá og ef við trúum því sérstaklega að það eigi að vera einhver sérstök fjárhagsleg forréttindi fyrir téð trúfélag, þá skil ég af hverju við myndum setja þessa grein inn í landslög árið 2021. En ég tel hins vegar ekkert af þessu eðlilegt. Ég tel allt af þessu vera algjörlega á skjön við hugmyndina um jafnræði fyrir lögum, þótt þetta sé vissulega langt frá því að vera alvarlegasta brotið á jafnræði sem um getur, hér eða annars staðar. Eftir stendur nefnilega að við erum hér að setja í lög að tiltekin stofnun skuli vera tiltekin tegund af trúfélagi, að tiltekin stofnun á Íslandi skuli trúa ákveðnum hlutum, nefnilega kennisetningu evangelískrar lúterskrar kristni. Mér þykir í eðli sínu, virðulegi forseti, frekar fjarstæðukennt fyrir lýðræðisríki að ætla að setja fólki einhverjar línur um það, hvort sem um er að ræða félög eða hvað þá einstaklinga.

En við skulum hafa það alveg á hreinu, virðulegi forseti, að þetta er arfleifð þess að það þótti eðlilegt. Það þótti eðlilegt að neyða fólk til trúar, ef ekki beinlínis með ofbeldi, þá með hótunum um slíkt að dauðanum loknum. Það er arfleifðin sem samband ríkis og kirkju byggist á. Það er ekki gagnrýni í sjálfu sér á trúfélagið eða kennisetningarnar, sem margar eru ágætar og ég aðhyllist sjálfur, t.d. að elska óvininn, að fyrirgefa við iðrun og fleira í þeim dúr. Ég verð reyndar að segja, og ég hugsa að hv. 3. þm. Suðurk., Birgir Þórarinsson, myndi taka undir með mér, að það er ýmislegt í dæmisögum úr kristinni kennisetningu sem gleymist stundum um of í samfélaginu og við mættum alveg hafa aðeins oftar í huga. Stundum er barninu hent út með baðvatninu, eins og sagt er. En þær kennisetningar og þær sögur, sú menning, lifir algerlega án sérstaks sambands milli ríkis og tiltekinnar kirkju. Annað sem má ekki gleymast er að þrátt fyrir að Ísland sé því miður enn sem komið er tiltölulega einsleitt samfélag þá eru fleiri trúarkennisetningar í samfélaginu okkar í dag. Þá þarf ég ekki að leita einu sinni út fyrir kristna kennisetningu. Hér eru margir kristnir söfnuðir, hér eru evangelískir lúterskir söfnuðir sem hafa aðrar kennisetningar eða a.m.k. aðrar áherslur en þjóðkirkjan.

Hv. þm. Birgir Þórarinsson sagði áðan að hann teldi að þjóðkirkjan ætti að taka virkari þátt í almennri þjóðmálaumræðu, hún ætti ekki að sitja þögul þegar sótt væri að kristinni trú, kristnum gildum, kristinni menningu. Það vill svo til að ég er sammála hv. þingmanni um það, eða öllu heldur tel ég að það væri betra ef hún myndi gera það, að tvennu leyti: Annars vegar því að ég held að mikið af því vonda sem ég tel geta fylgt of harðri trúarkennisetningu — þá á ég við neikvæð áhrif sem trúarsannfæring getur haft á líf fólks, kannski eru það fréttir fyrir suma en það getur gerst, en hins vegar vegna þess að sumt í þessum kennisetningum mættum við alveg ræða meira á opinberum vettvangi og velta fyrir okkur hvort ekki séu einfaldlega góðar hugmyndir, fyrir þær sakir einar að hafa jákvæð áhrif á samfélagið og einkalíf okkar. Ég tel fullt af slíku vera til staðar í langflestum trúarbrögðum, ekki bara kristni. Reyndar rekst ég á eitthvað, í öllum þeim trúarbrögðum sem ég hef haft þau forréttindi að kynna mér í gegnum tíðina, sem ég tel góðar hugmyndir, jafnvel þótt þær séu ekki upprunnar frá skapara himins og jarðar. En, virðulegi forseti, þetta var kannski örlítill útúrdúr út frá 1. gr. frumvarpsins.

Við hlýddum áðan á ræðu hv. þm. Birgis Þórarinssonar og mér fannst hún áhugaverð. Ég hefði hlustað á hana þótt hún hefði birst á Youtube vegna þess að mér finnst áhugavert að biskupsembættið sé elsta embætti á Íslandi. Mér finnst sagan áhugaverð. Mér finnst áhugavert hvernig menningar verða til og hvernig þær tileinka sér tiltekin gildi, hvernig ákveðnar hefðir verða til og hvers vegna þær eru, hvort þær eru góðar eða slæmar og út frá hvaða sjónarmiðum. Mér finnst það allt saman mjög áhugavert og finnst þetta allt saman eiga erindi inn í hina almennu dægurumræðu, trúarlega sem aðra. Þetta er hluti af mannlífinu, hluti af samfélagi okkar, menningu og sögu, hvort sem okkur líkar betur eða verr. En mér finnst hins vegar stórfurðulegt að slíkar ræður séu haldnar á Alþingi, nema ef okkur er boðið upp á frumvarp sem þetta. Okkur er boðið upp á frumvarp um þetta vegna þess að við erum með ákveðin tengsl milli ríkis og kirkju.

Þótt ég hafi upprunalega ekki ætlað að gera það þá get ég ekki annað en farið sérstaklega út í eina tegundina af tengslunum, sem eru hin fjárhagslegu, þótt það verði mjög þreytandi að rökræða það hér á Alþingi, virðulegi forseti, og víðar, það er endurtekning á sama hringnum í hvert sinn. Ég átta mig á því að kirkjujarðasamkomulagið er samningur. Ég átta mig á því að greiðslurnar til kirkjunnar eru fyrir eignatilfærslu á jörðum. Um þá þætti málsins er enginn ágreiningur. Þegar þau sérstöku fjárhagslegu forréttindi sem þjóðkirkjan nýtur á grundvelli þess samnings eru gagnrýnd er það ekki vörn og svarar ekki áhyggjunum að benda á þessar staðreyndir. Ég nefni þetta vegna þess að mér finnst þreytandi að hlusta á þessi svör, virðulegi forseti. Það er einfaldlega ekki sanngjarnt að selja einhverjum tæmandi auðlind, t.d. jarðir, gegn óendanlega háu gjaldi. Það ætti stofnun sem kennir sig við siðferði að sjá án þess að neinn bendi henni á það, og sjá það mjög skýrt.

Mér finnst það, verð ég að segja, ákveðin vanvirðing við dómgreind fólks að láta eins og þetta kirkjujarðasamkomulag, með þessari furðulegu samblöndun af varanlegri leigu og meintri sölu, sé á einhvern hátt réttlátt eða skiljanlegt. Það er það einfaldlega ekki, virðulegi forseti, nema út frá því forneskjulega og mótsagnakennda sjónarmiði að það sé eðlilegt að tiltekið trúfélag njóti sérstakra fjárhagslegra forréttinda í gegnum ríkissjóð af sögulegum ástæðum. Það er það einfaldlega ekki, virðulegi forseti, og fólk mun ekki hætta að mótmæla því.

Orðræðan í kringum þau frumvörp sem eru lögð hér fram, til að mynda þegar kirkjujarðasamkomulagið var endurskoðað á dögunum, tekur ávallt til sjálfstæðis kirkjunnar innan frá. Þá koma fram ræður um það hvernig biskupsembættið virkar eða hvernig kirkjuþing virkar, eða samráð Alþingis við kirkjuþing eða því um líkt, sem mér finnst allt persónulega áhugavert sem einstaklingi en kemur Alþingi ekki á nokkurn hátt við, virðulegur forseti. Það er bara þannig. Það kemur almenningi ekkert við. Ekki ræðum við hér innra skipulag Siðmenntar eða trúfélaga múslima eða trúfélaga ásatrúarfólks. Hvers vegna ekki? Við höfum enga ástæðu til þess, það kemur okkur einfaldlega ekkert við.

Virðulegi forseti. Það er í grunninn ekkert flóknara en það. Þann punkt held ég að fólk skilji alveg í grundvallaratriðum, langflest fólk hér inni í það minnsta, og vissulega hæstv. dómsmálaráðherra. Þetta kemur okkur ekkert við og kjánalegt að vera eitthvað að ræða hér innra skipulag tiltekinna trúfélaga eða hvort félagið sé evangelískt og lúterskt eða ekki. Þá er fólk alveg til í að taka þá umræðu og gera einhverjar breytingar til að það verði aðeins minna kjánalegt fyrir okkur hér á Alþingi að ræða en hins vegar situr alltaf eftir það sem málið snýst um, fjárhagslegu forréttindin sem þjóðkirkjan nýtur í skjóli samninganna sem hafa verið gerðir við ríkið í gegnum tíðina.

Virðulegi forseti. Ég kann ekki í sjálfu sér góða lausn á því að breyta þessum samningum þannig að úr verði eitthvað sanngjarnt. Ég er ekki með þá lausn hér og nú. En ég verð heldur vonlítill þegar ég sé ekki einu sinni metnað fyrir því að láta á það reyna. Það er augljóst að ekki er verið að láta á það reyna þegar svörin eru þau að þetta sé samningur og síðan innihaldi samningsins lýst í nokkrum setningum. Það er ekki merki um vilja til að aðskilja ríki og kirkju, virðulegi forseti. Það er metnaður fyrir því að láta ræðurnar hérna og þingmálin kannski líta aðeins minna kjánalega út með tilliti til hlutverks ríkisins og löggjafarsamkundunnar sérstaklega.

Það er ansi mikið af ákvæðum í frumvarpinu sem ég átta mig ekki á hvers vegna eigi að vera í lögum yfir höfuð. Eflaust eru til einhverjar réttlætingar fyrir því. Ég efast um að ég myndi taka undir þær en þær einkennast af því að samband ríkis og kirkju virðist á einhvern hátt inngróið í sjálfa ríkismenninguna, sem er auðvitað mjög óhollt. Sum ákvæði hérna gætu verið rökrétt með hliðsjón af því, ef við trúum því að þjóðkirkjan eigi að vera þjóðkirkja eða ríkiskirkja, eða á einhvern hátt sérstök, eins og t.d. að þjóðkirkjunni beri að halda úti vígðri þjónustu á landinu öllu. Allt í lagi, ég þarf það ekki persónulega og fólk sem stendur utan kirkjunnar þarf það ekki og biður ekki um þjónustuna og því er ekki verið að gera neinn greiða með því að halda þessu úti, bara svo það sé sagt. Takk, en með fullri virðingu: Nei, takk. Ég skil að þetta sé í lögum ef fólk er þeirrar skoðunar að þetta eigi að vera kirkja sem hafi einhver sérstakar skyldur gagnvart hinum almenna borgara, þ.e. umfram önnur trúfélög.

Virðulegi forseti. Í 6. gr. kemur fram að söfnuður sé félagsleg og fjárhagsleg grunneining þjóðkirkjunnar. Ég átta mig ekki á því hvað það kemur Alþingi við eða hvers vegna það þarf að vera í lögum að söfnuðir á tilteknu landsvæði myndi sókn og ein eða fleiri sóknir myndi prestakall. Eflaust eru það flottar hugmyndir, ég þekki það ekki, virðulegi forseti. Ég myndi glaður hlýða á aðra ræðu hv. 3. þm. Suðurk. um það en ég sé ekki hvers vegna þetta er í lögum. Ég skil ekkert í því hvers vegna þetta á ekki einfaldlega heima í félagslögum trúfélagsins sjálfs. Sama má segja um, eftir því sem ég fæ best séð, flest hérna, með fyrirvara um fáfræði mína um innri málefni kirkjunnar.

Eftir stendur þó, virðulegi forseti, þegar við tölum um aðskilnað ríkis og kirkju, og við ætlum að vera heiðarleg með það, að við verðum að taka fjárhagslega þáttinn með inn í myndina. Ef við ætlum að vera heiðarleg með það þýðir ekki að láta eins og samningarnir sem hafa verið gerðir skipti engu máli í því sambandi, að þeir séu einhvern veginn utan við spurninguna eða að það sé einhver önnur umræða, vegna þess að svo er ekki. Þegar almennur borgari, sem tilheyrir einfaldlega öðru trúfélagi, er ekki evangelískrar lúterskrar trúar, ekki af mannvonsku heldur vegna þess að viðkomandi er það einfaldlega ekki, þá á viðkomandi ekki að þurfa að greiða hærra gjald fyrir þjónustuna en sá sem er evangelískrar lúterskrar trúar. Þetta er svo einfalt, virðulegi forseti, þetta er svo augljóst út frá öðru ákvæði í stjórnarskránni sem á að tryggja jafnræði fyrir lögum. Mótsögnin milli þeirrar greinar og þjóðkirkjuákvæðisins í sömu stjórnarskrá er kjánaleg.

Ég ætla að láta þetta duga, virðulegi forseti, enda búinn með tímann, en ég vona að einn daginn hættum við að ræða trúmál efnislega á hinu háa Alþingi en það gerist ekki nema með fullum aðskilnaði ríkis og kirkju og þá fylgja fjármálin að sjálfsögðu með.